Sárt bítur soltinn
„Ertu búin að lesa greinarnar eftir bæjarstjórann í Reykjanesbæ?“ spurði mig ágætur kunningi minn. Ég neitaði því en sagðist hafa frétt að þar stæði að ríkisstjórnin vildi ekki styðja Suðurnesjamenn í atvinnusköpun vegna þess að hún öfundaði sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ svo mikið. Mér þætti reyndar ótrúlegt að nokkur sem vildi láta taka mark á sér héldi því fram.
Ég er sammála bæjarstjóranum um mikilvægi atvinnusköpunar og að þar verði allir að leggja sig fram. Eftir lestur greinanna sá ég hins vegar að leiðrétta þyrfti nokkrar rangfærslur. Einnig velti ég því fyrir mér hvaða ávinning hann sæi í því fyrir Suðurnesjamenn að láta svo illa ígrunduð skrif frá sér.
Reykjanesbær hefur fengið sérmeðferð
Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ heldur því fram að ríkið hafi ekki svarað erindi er varða kaup ríkisins á landi undir orkumannvirki HS orku og getur sér þess til, að það sé vegna þess að ríkisstjórnin vilji ekki að bærinn geti lækkað skuldabyrði sína en um er að ræða meðferð ógoldins fjármagnstekjuskatts. Þessi ummæli vekja furðu svo ekki sé meira sagt. Hið rétta er að viðræður hafa staðið yfir um kaupin og drög að samkomulagi liggur fyrir. Það sem útaf stendur er frágangur á samningi sem aðilar voru sammála um að ljúka nú eftir sumarfrí.
Einnig er ófrágenginn samningur um eftirstöðvar skulda bæjarins við ríkið. Möguleikinn á því að semja um skuldirnar en gjaldfella þær ekki, skapaðist vegna þess að Alþingi breytti lögum til að koma til móts við sveitarfélög sem skulda háar fjárhæðir í fjármagnstekjuskatt eins og Reykjanesbær gerir. Vegna slæmrar fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar fellst ríkið á að taka eignir upp í skuldir og lögum var breytt svo semja megi um þær skuldir sem útaf standa. Þegar önnur sveitarfélög á Suðurnesjum voru rukkuð um fjármagnstekjuskatt vegna sölu á hlutum í hitaveitunni var ekki tekið á þeim með slíkum silkihönskum. Þess var krafist að þau greiddu upphæðirnar með beinhörðum peningum á gjalddaga, sem þau gerðu.
Virkjunarleyfi byggi á faglegu mati
Bæjarstjórinn segir að vegna þess að þrýsting skorti frá stjórnvöldum á Orkustofnun þá hafi hún ekki afgreitt viðbótarvirkjanaleyfi til HS orku. Hann kallar eftir pólitískum afskiptum af veitingu virkjanaleyfa. Við Suðurnesjamenn hljótum að hafna öllu slíku því við leggjum traust okkar á það að Orkustofnun byggi niðurstöður sínar á gögnum og faglegu mati sem sýna að umbeðnar framkvæmdir gangi ekki svo freklega á orkuauðlindina að við sitjum eftir á köldu svæði.
Mikilvægi atvinnusköpunar
Við erum sammála um mikilvægi atvinnusköpunar. Ríkisvaldinu ber að skapa fyrirtækjum eins gott starfsumhverfi og mögulegt er á hverjum tíma. Í viðleitni til að skapa fyrirtækjum gott starfsumhverfi hafa verið gerðir í tíð þessarar ríkisstjórnar fjárfestingasamningar sem gagnast álverinu í Helguvík, kísilverinu í Helguvík og gagnaverinu á Ásbrú. Vilji stjórnvalda er skýr og birtist í nýlegum lagabreytingum. Það er ekki hlutverk ríkisins að stíga inn í samninga um orkuverð, lánasamninga eða aðra viðskiptasamninga einkafyrirtækja. Ef bæjarstjórinn er ekki sammála þessu og vill að ríkið geri eitthvað meira er hann þá að biðja um eignarnám eða aukin ríkisrekstur í stað einkafyrirtækja? Ég fæ ekki annað séð þó ótrúlegt sé.
Ríkið styður uppbyggingu á Ásbrú
Tilgangurinn með stofnun Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar árið 2006 var að koma fasteignum í eigu ríkisins á fyrrum varnarsvæði sem fyrst í hagfelld borgaraleg not. Jafnframt var gert ráð fyrir að félagið gæti á grundvelli þjónustusamnings við ríkið tekið að sér rekstur, umsjón og umsýslu tiltekinna eigna ríkisins á svæðinu, þ.m.t. sölu, útleigu, og niðurrif eigna svo og hreinsun svæða. Verkefni Þróunarfélagsins snúa að mestu að fasteignaviðskiptum, að koma eigum ríkisins í sölulegt horf og finna viðskiptavini sem telja starfsemi á fyrrum varnarsvæði fýsilega. Ríkið hefur staðið að baki því starfi eftir hrun þó umhverfið hafi að sönnu breyst og niðurskurður á þjónustu ríkisins og framlagi til ríkisstofnana verulegur. Ríkið hefur stutt uppbyggingu á Ásbrú og skapað með þeim stuðningi nokkur hundruð ný störf og hlúð að sprotafyrirtækjum, gagnaveri og skólastarfi á svæðinu svo eitthvað sé nefnt.
Eitt verkefni Þróunarfélagsins er að koma gamla herspítalanum í stand. Áform eru uppi um umfangsmikla ferðatengda heilbrigðisþjónustu sem nýti einnig aðrar fasteignir á svæðinu. Ólíklegt hlýtur að teljast að fyrirtæki með góða viðskiptahugmynd hætti við að fjárfesta í henni þó einhver óvissa hafi verið um stund um tímabundna leigu á skurðstofum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eins og bæjarstjórinn heldur fram í grein sinni. Ef svo væri stæði verkefnið í heild ekki á nægilega styrkum stoðum.
Hallarekstur réttlætir ekki ríkisaðstoð
Bæjarstjórinn heldur því fram að frumvarp um Helguvíkurhöfn fáist ekki afgreitt í þingnefnd. Hið rétta er að samgöngunefnd Alþingis tók málið til umræðu og á þeim fundi var upplýst að heildarendurskoðun hafnalaga stæði yfir og lögð var fram sú tillaga að nefndin óskaði formlega eftir því við innanríkisráðuneytið að litið yrði til efnis frumvarpsins við endurskoðunina. Tillagan var samþykkt samhljóða og von er á frumvarpi um ný hafnalög á næsta þingi. Ótímabærar fjárfestingar við Helguvíkurhöfn eða hallarekstur hennar réttlæta ekki ein og sér ríkisaðstoð.
Vöndum samskiptin – það kemur svæðinu til góða
Þjónusta hins opinbera, þ.e. ríkis og sveitarfélaga eru í svo mörgu samtvinnuð og hagsmunir íbúanna byggjast á því að gott samstarf sé á milli þessara tveggja stjórnsýslustiga sama hvaða flokkar eru í stjórnarmeirihluta. Bæjarstjórinn hefur „ekki lyft símtóli, hvað þá farsíma“ til að ræða málefni Suðurnesja við eina stjórnarþingmanninn „sem tilheyrir svæðinu“ svo vísað sé til orðalags hans. Stjórnarþingmaðurinn hefur hins vegar hringt í bæjarstjórann til að ræða bæði skólamál og atvinnumál á svæðinu. Efla þarf og bæta samskiptin.
Opinberir aðilar eru fjarri því að vera hafnir yfir gagnrýni en hún þarf að vera málefnaleg svo mark sé á henni takandi. Ríkisstjórnin hefur stutt atvinnusköpun á Suðurnesjum eins og dæmin sanna og mun gera það áfram. Hún öfundar ekki meirihluta sjálfstæðismanna af verkum þeirra eða af þeim rekstrarvanda sem þau hafa valdið.
Fjárfesting á Íslandi er í sögulegu lágmarki og til að auka hana þarf að efla traust og þor. Hættan við skrif bæjarstjórans í Reykjanesbæ er sú að fjárfestar og fyrirtæki taki orð hans trúanleg og forðist Suðurnesin. Vonandi taka þessir aðilar greinar bæjarstjórans ekki alvarlega því þær eru líklegast aðeins skrifaðar til að þjóna flokkshagsmunum. Eitt er víst að þær eru fjarri því að þjóna hagsmunum íbúa Reykjanesbæjar eða Suðurnesja.
Ég hvet eindregið til samvinnu um málefni Suðurnesja, samtali og traustum upplýsingum. Þannig náum við bestum árangri.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Suðurkjördæmis og formaður fjárlaganefndar Alþingis