Sannleikurinn er sagna bestur
Undanfarið hefur átt sér stað ótrúleg umræða að frumkvæði Árna Sigfússonar bæjarstjóra í Reykjanesbæ og Böðvars Jónssonar bæjarfulltrúa, umræða sem hefur blossað upp aftur núna í tengslum við hafnarmál í Helguvík og alvarlegan fjárhagsvanda sveitarfélagsins.
Suðurnesjamenn hafa um skeið undirbúið byggingu álvers í Helguvík og í því skyni farið af stað með umfangsmiklar og fjárfrekar hafnarframkvæmdir. Ég, sem fyrrverandi samgönguráðherra fæ ákúrur fyrir að hafa ekki veitt fé til framkvæmdanna úr ríkissjóði.
Alltaf minnast þessir tveir menn á loforð sem þeir eiga að hafa fengið frá ríkinu. Nú veit ég ekki hvað fór á milli forystumanna sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórnum fyrri ára og sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ en það hljóta allir að sjá að ég get ekki uppfyllt loforð sem hvorki er að finna í samgönguáætlun né fjárlögum undanfarinna ára. Eins skilst mér að því hafi verið haldið fram að ég hafi lofað að fela ráðuneytisstjóra samgönguráðuneytisins að hefja undirbúning að gerð sértækra laga um Helgavíkurhöfn. Slíkt er ekki sannleikanum samkvæmt.
Ekki í samgönguáætlun sjálfstæðismanna
Í þessu sambandi er rétt að vekja sérstaka athygli á því að árið 2003, í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, var gerð sú lagabreyting á hafnalögum að ekki er heimilt að styrkja stækkun hafna með fjárveitingum úr ríkissjóði. Á samgönguáætlun áranna 2007 til 2010 voru engar fjárveitingar til hafnaframkvæmda í Helguvík og heldur ekki í tillögu til þingsályktunar fyrir tólf ára samgönguáætlun 2007 til 2018, sem reyndar fékkst ekki afgreidd á Alþingi. Umrædd lagabreyting á hafnalögum var samþykkt í tíð fyrrverandi samgönguráðherra, samflokksmanni þeirra Árna og Böðvars.
Þetta hafa Suðurnesjamenn verið upplýstir um að minnsta kosti í tvígang formlega, með bréfi til bæjarstjóra þann 23. júní 2009 og með bréfi til Reykjanesshafnar þann 14. október 2009. Í síðara bréfinu var vísað sérstaklega til þess að framkvæmdin falli ekki innan gildandi lagaheimilda um þátttöku ríkissjóðs í fjármögnun verkefnisins.
Böðvar beitti sér ekki sem aðstoðarmaður
Það sem er einnig áhugavert fyrir Suðurnesjamenn er að Böðvar Jónsson var aðstoðarmaður fjármálaráðherra í mörg ár og á þeim tíma var unnið að samgönguáætlun 2007 - 2010. Sú samgönguáætlun var samþykkt af Alþingi þann 17. mars 2007. Í þeirri samgönguáætlun var engin fjárveiting til hafnarframkvæmda í Helguvík, né í fjárlögum.
Ég held því að þeir Árni og Böðvar verði að líta sér nær í leit að sökudólgum hvað varðar alvarlega fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar.
“ Margur brýtur vönd yfir eigin hönd “
Kristján L Möller