Sanngjarnt skattkerfi
Á liðnu kjörtímabili var þrepaskiptu skattkerfi komið á, kerfinu sem Sjálfstæðismenn ætla að afnema ef þeir komast til valda, skoðum það aðeins nánar.
Til að byrja með þarf að hafa í huga að snillingunum tókst að þurrausa ríkissjóð og vel það. Björgunarsveitin þarf nú að greiða skuldir og halda áfram að reka þjóðfélagið. Í þeirri stöðu þarf að íhuga vel hverjir leggja sitt af mörkum í björgunarstarfið.
Tökum dæmi af þremur konum. Jóna hefur 230.000 kr í laun á mánuði, Sigga 660.000 kr og Magga 1.800.000 kr. Með einu skattþrepi og persónufrádrætti eins og kerfið var árið 2009 og ef við gerum ráð fyrir framfærslukostnaði einstaklings upp á kr. 128.000 (framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara) á Jóna 58.000 í afgang eftir skatta og nauðsynjar, Sigga 328.000 eða sex sinnum meira en Jóna, Magga á hins vegar 1.044.000 eftir eða átján sinnum meira en Jóna.
Nú hrynur þjóðfélagið og það þarf að greiða skuldir, hvað gera menn þá? Ein leið er að hækka skattaprósentuna flatt. En myndum við láta unglinginn greiða jafnmikið og fullvinnandi forstjóra á heimili ef gera þarf við þakið sem fauk í ofsaveðri? Fáir, því á flestum heimilum er byrðunum skipt eftir getu þeirra sem eiga að bera. Það reynum við líka að gera á þjóðfélagsheimilinu eftir því sem kostur er. Ein leið til þess er þrepaskipt skattkerfi. Þeir sem minnsta svigrúmið hafa í fjármálum heimilisins finna þá minna fyrir hruninu, þeir sem eiga meira greiða hærra, þeir hafa breiðara bak.
Tökum aftur dæmið af þessum eðalfrúm, með þrepaskiptingu og sama persónufrádrætti og framfærslukostnaði og í fyrra dæminu. Jóna, með lágu launin, greiðir rúm 43.000 kr, sömu upphæð og í flata skattinum, Sigga greiðir 223.000 kr sem er hækkun upp á 20.000 kr frá fyrra dæmi en Magga sem hefur nærri tvær milljónir á mánuði eða áttföld laun Jónu greiðir 790.000. Eftir sem áður er afgangur Möggu fimmtán sinnum meiri en afgangur Jónu eftir skatta og framfærslu.
Með þessu brölti aukast tekjur ríkissjóðs um rúm 183.000 en tilgangurinn var sem sagt að auka tekjurnar til að greiða sameiginlegar skuldir. Ef sækja ætti sömu upphæð með hækkun á flötum skatti þarf hann að verða 44%. Þá á Jóna (unglingurinn á þjóðarheimilinu) 43.000 krónur eftir skatta og framfærslu, í þrepakerfinu á hún 58.000 eftir í buddunni. Magga á 922.205 eftir skatta og framfærslu eða meira en tuttugu sinnum meira en Jóna. Þetta þykir sumum sanngjarnt, öðrum ekki.
Um þessar tölur má sjálfsagt orðhenglast eitthvað og snúa út úr, til dæmis efast ég sjálf um að einstaklingur geti framfleytt sér á 128.000 á mánuði. Hækkun á framfærslukostnaði eykur þó enn meira ójafnvægið í afkomunni. Eins er hækkun persónufrádráttar frá árinu 2009 ekki tekin með í þessum útreikningi.
Grundvallarniðurstaðan er að þrepaskipt skattkerfi er sanngjörn leið til að auka tekjur ríkissjóðs á erfiðu tímum. Verði þrepaskiptingin afnumin er tvennt í stöðunni, hækka skattprósentuna verulega eða auka niðurskurð umtalsvert. Þetta er ekki flóknara.
Bryndís Sigurðardóttir
Frambjóðandi í forvali Samfylkingar á Suðurlandi.