Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Samvinna – Betri bær
  • Samvinna – Betri bær
Föstudagur 14. mars 2014 kl. 13:33

Samvinna – Betri bær

– Jónína Magnúsdóttir skrifar.

Kæri íbúi og kjósandi í Garði.
Í litlu samfélagi eins og Garðinum er samvinna allra bæjarfulltrúa, bæjarstjóra, starfsfólks sveitarfélagsins, fyrirtækja og íbúa mikilvæg í þeim verkefnum sem bærinn fæst við.  Efla þarf samfélagslega þátttöku sem flestra. Mikilvægt er að fólki finnist það tilheyra  samfélaginu því það eykur stolt bæjarbúa.  Bæjarfulltrúar og bæjarstjóri þurfa að vera í góðum samskiptum við íbúana og þekkja mannauðinn. Ég mun standa fyrir samvinnu allra og að bæjarstjóri vinni bæði fyrir minnihluta og meirihluta bæjarstjórnar, íbúum Garðs til heilla.

Flestir fara inn í bæjarmálin af hugsjón fyrir bæjarfélaginu  og hafa vilja til að gera vel í uppbyggingu og ábyrgri fjármálastjórnun með tilliti til allra málaflokka.  Mestu skiptir þó að hlusta eftir skoðunum sem flestra og vinna að málunum á ábyrgan, framsýnan og skynsaman hátt  með sátt að leiðarljósi. Til þess þarf skýra heildarsýn til framtíðar þar sem mælikvarðinn er árangur. Ef við hugum vel að innviðinum, sem er fólkið, þá lætur árangurinn ekki á sér standa.

Samfélagið Garður þarf á duglegum, metnaðarfullum og framsæknum einstaklingum að halda í bæjarmálin. Ég er tilbúin að vera hluti af hóp sem leiðir þau verkefni,  full af orku og reiðubúin að taka til starfa.   

Jónína biður um þinn  stuðning í 2. sætið í prófkjöri Sjálfstæðismanna og óháðra þann 22. mars.

Um mig:
Ég býð mig fram í fyrsta sinn í prófkjöri og hef ekki verið starfandi í sjálfstæðisflokknum.

Ég býð fram krafta mína sem óháður fulltrúi innan listans, en treysti mér vel til góðra verka í samstarfi við félaga mína á listanum. Ég hef mikinn áhuga og metnað fyrir sveitarfélaginu okkar í Garði og tel það góðan grundvöll fyrir framboði mínu.

Áður hef ég komið að málefnastarfi í kosningum og unnið í nefndum á vegum bæjarins, bæði skólanefnd og æskulýðsnefnd. Einnig hef ég tekið þátt í mótun skólastefnu bæjarins sem hluti af stýrihóp sem hélt utan um stefnumótun og framkvæmd.

Ég er menntaður kennari og náms- og starfsráðgjafi og starfa nú sem slíkur hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Ég hef átt farsælan starfs- og námsferil sem ég hef lagt metnað í að sinna vel.
Ég er gift Guðna Ingimundarsyni, rekstrarstjóra Johan Rönning Reykjanesbæ og saman eigum við þrjá drengi á aldrinum 3-15 ára. Sem mikil fjölskyldumanneskja er ég dugleg að rækta bæði mína nánustu og stórfjölskylduna. Vinirnir skipa stóran sess í mínu lífi. Ég syng og dansa í laumi og í góðra vina hópi  

Jónína Magnúsdóttir

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024