Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Samtalið um Helguvík
Föstudagur 3. júlí 2015 kl. 11:00

Samtalið um Helguvík

Undanfarna daga hefur skapast mikil umræða um áframhaldandi uppbyggingu Helguvíkurhafnar, aðkomu ríkisins og störf okkar þingmanna. Af þeirri umræðu má sjá að menn eru  misvel upplýstir. Greinarhöfundar hafa, ásamt öðrum þingmönnum kjördæmisins, unnið markvisst að því að tryggja fjármagn til Helguvíkur þar sem uppbygging hafnarinnar mun skapa mörg verðmæt störf á svæðinu. Þau markmið hafa ekki breyst.

Ívilnunarfrumvarp undirbúið
Förum aðeins yfir feril málsins: Iðnaðarráðherra hefur unnið að málinu frá upphafi kjörtímabilsins. Sú vinna fólst í því að undirbúa ívilnanafrumvarp um hafnarframkvæmdir. Ríkisstjórnin samþykkti síðan á fundi sínum fyrir áramót að slíkt frumvarp næði fram að ganga í ríkisstjórn og til stóð að frumvarpið yrði lagt fyrir nú á vorþingi. Vandað var til verka við gerð frumvarpsins, meðal annars út frá ríkisstyrkjareglum í samstarfi við ESA. Bæjarstjóri og bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar hafa reglulega fengið upplýsingar um feril málsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

U-beygjan
Fyrir nokkrum vikum hafnaði stjórn Reykjaneshafnar ívilnunarleið ríkisstjórnarinnar vegna þess að þau töldu hana ekki henta sér. Í kjölfarið óskuðu þaueftir að farið yrði eftir ný samþykktum hafnarlögum um kostnaðarþátttöku ríkisins í hafnarframkvæmdum í gegnum hafnarsjóð. Á þeim tíma var vinna við samgönguáætlun langt komin. Þessi skyndilega breyting á afstöðu stjórnenda Reykjanesbæjar og hafnarinnar, setti stórt strik í reikninginn. Þá átti eftir að koma öðrum ráðherra, ráðuneyti og stofnunum inn í málið og jafnframt að undirbúa framkvæmdaáætlun fyrir framkvæmd upp á 1,5 milljarð króna. Slík vinna tekur tíma.

Samskiptaleysi stjórnenda
Samkvæmt nýjum hafnalögum eru viss skilyrði sem hafnir þurfa að uppfylla til að fá styrk úr hafnarsjóði. Þau skilyrði uppfylltu Reykjaneshafnir ekki að fullu. Á fundi allra þingmanna Suðurkjördæmis með bæjarfulltrúum og formanni SSS fyrir skömmu kom síðan í ljós að bæjarfulltrúar vissu ekki allir af því að stjórnendur Reykjaneshafnar hefðu þegar hafnað ívilnunarleið ríkisstjórnarinnar. Svo virðist sem menn séu hreinlega ekki að tala saman, hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri gerir og öfugt. Við getum ekki tekið ábyrgð á slíku samskiptaleysi en erum hins vegar öll að vilja gerð til að aðstoða við úrlausn mála. En menn verða þá líka að við hvað þeir vilja.

Tafir á ábyrgð stjórnenda Reykjanesbæjar
Fjárlög ársins 2016 verða ekki tilbúin fyrr en í september 2015. Enginn ráðherra veit hvaða fjárheimildir hann mun fá í næstu fjárlögum hins vegar hafa ráðherrar lagt fram sínar beiðnir og áætlanir. Reykjaneshafnir eru í öllum áætlunum ríkisstjórnarinnar og forgangsmál hjá okkur þingmönnum og það kemur skýrt fram í meðfylgjandi áliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar. Því eru allar tafir um niðurstöðu í þessu máli á kostnað stjórnenda  Reykjanesbæjar. Ef stefnubreyting þeirra hefði ekki komið til  á síðustu metrunum, værum við að öllum líkindum að samþykkja ívilnanafrumvarp til Reykjaneshafna nú við þinglok.

Of seint
Lög um opinber fjármál, þingsköp og stjórnaskrá koma í veg fyrir að ríkisbatteríið geti skipt svo hratt um stefnu. Ríkisfjármálin eru ekki nettur hraðbátur sem hægt er að þeysast á um höfin blá, heldur meira í ætt við ógnar stórt og þunglamalegt flutningaskip. Menn verða að taka stefnuna áður en þeir leggja af stað - og tala saman.

Álit meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar um Helguvíkurhöfn:
http://www.althingi.is/altext/144/s/1479.html

Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins og
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins