Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Samtaka, getum við það!
    Stofnfundur Hollvinafélags Bjargarinnar verður haldinn mánudaginn 18. janúar kl. 20.
  • Samtaka, getum við það!
    Hannes Friðriksson.
Laugardagur 16. janúar 2016 kl. 07:00

Samtaka, getum við það!

Af lestri fjárhagsáætlunar Reykjanesbæjar fyrir árið 2016 er ljóst að  óvissa er framundan hvað varðar suma þá þjónustu er bærinn veitir og ekki telst lögbundin. Einn  þessara þátta er rekstur geðræktarmiðstöðvarinnar Bjargarinnar. Velferðarráð Reykjanesbæjar hefur með kjarnyrtri bókun þann 14. desember sl. kallað eftir aðstoð bæði ríkis og félagasamtaka til þess að halda rekstri Bjargarinnar gangandi. Þar tala þeir sem þekkja og við því kalli hljótum við sem samfélag að bregðast við og hjálpa, sé þess nokkur kostur.
 
Markmið starfsemi Bjargarinnar allt frá stofnun árið 2005 hefur verið margþætt og stuðlað að því að byggja upp og styðja við einstaklinga sem eru eða hafa verið að glíma við geðraskanir. Það hefur verið gert með því að rjúfa félagslega einangrun þeirra, viðhalda og styrkja tengslanet, bæta lífsgæði og draga úr stofnanainnlögnum eftir því sem kostur er.
 
Björgin er endurhæfingarúrræði þar sem þeir er þjónustunnar njóta eru á endurhæfinga- og örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, eða með lágmarksframfærslu á meðan beðið er afgreiðslu endurhæfingar-/örorkumats. Ljóst er að starfið hefur  skilað umtalsverðum árangri og á sama tíma hefur orðið til þekking og reynsla. Þá þekkingu og reynslu gæti orðið erfitt að endurheimta kæmi til lokunar eða skerðingar á starfseminni frá því sem nú er.
 
Það er einkenni góðs og sterks samfélags að standa saman og standa vörð um þá þætti samfélagsþjónustunnar sem talinn er nauðsynlegur svo gott mannlíf geti þrifist. Starfsemi Bjargarinnar er einn þeirra þátta sem nú þarf á stuðningi að halda. Það er nú sem reynir á hina samfélagslegu ábyrgð.
Vilji bæjaryfirvalda til að viðhalda sem mestri og bestri þjónustu við bæjabúa er ljós, um leið og vitað er að gangi kröfur lánadrottna eftir um frekari niðurskurð munu miklar breytingar verða. Við megum ekki láta það gerast að hér verði rekið samfélag á forsendum lándrottna sem því miður virðast draga það að axla sína samfélagslegu ábyrgð. Það yrði samfélag stöðnunar, þar sem öll þjónusta yrði í lágmarki. Við skulum snúast til varnar og standa vörð um það sem vel hefur verið gert og er okkur til sóma.
 
Hver sem niðurstaðan verður í samningarumleitunum bæjaryfirvalda við lánadrottna er ljóst að nokkrar breytingar eru fyrirsjáanlegar innan velferðarþjónustunnar. Viljinn er fyrir hendi, en fjármagnið vantar. Framtíð Bjargarinnar verður ekki tryggð nema til komi tímabundinn stuðningur félagasamtaka og fyrirtækja í bænum.
 
Ég hvet því sem allra flesta áhugasama og fulltrúa félagasamtaka og fyrirtækja til að mæta á undirbúningsfund að stofnun Hollvinafélags Bjargarinnar er haldinn verður í húnæði Bjargarinnar þann 18. janúar klukkan 20.00. Á fundinum verða málin rædd og leitað tillagna til lausnar. Við skulum ekki gefast upp þó á móti blási. Við skulum sameinuð skapa það samfélag sem við getum verið stolt af. Samtaka getum við það.
 
Með ósk um gleðilegt og gott nýtt ár,
Hannes Friðriksson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024