Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum
Laugardagur 14. apríl 2012 kl. 15:15

Samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum


Aðalfundur SSS var haldinn í Sandgerði föstudaginn 13. apríl. Í ljósi átaka sem höfðu verið á stjórnarfundum sambandsins bjuggumst við sem sitjum í stjórninni fyrir minni sveitarfélögin við hörðum átökum, jafnvel klofningi.

Á fundinum voru teknar fyrir tvær tillögur. Tillaga Reykjanesbæjar um að fjölga stjórnarmönnum úr 5 í 7, þar sem Reykjanesbær hefði þrjá fulltúra og tillaga hinna sveitarfélaganna um óbreytta 5 manna stjórn. Samstaða var um aðrar breytingar á Sambandinu.

Sjónarmið Reykjanesbæjar var að mjög miklu munaði á fjölda kjósenda að baki hverjum fulltrúa í stjórninni. Reykjanesbær þjónaði meira en helmingi íbúa á Suðurnesjum og eðlilegt væri að skipun í stjórn landshlutasamtakanna endurspeglaði þá staðreynd.

Sjónarmið minni sveitarfélaganna var að landshlutasamtökin væri samráðsvettvangur 5 sjálfstæðra sveitarfélaga sem gætu mætt með sjónarmið sín á jafnréttisgrundvelli. Þannig væri það í flestum landshlutasamtökum. Reykjanesbæ væri nú þegar tryggð meiri völd en öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum með neitunarvaldi í öllum málum og stjórnarformennsku annað hvert ár.

Hlutverk landshlutasamtakanna hefur verið að breytast síðustu ár, víða er þrýst á sveitarstjórnarstigið um frekara samstarf eða sameiningu og núverandi ríkistjórn hefur fært fleiri verkefni yfir til þeirra. Margir telja að verið sé að móta þriðja stjórnsýslustigið án þess að pólitísk umræða hafi farið fram og það skapar spennu á sveitarstjórnarstiginu. Það er mitt mat að átökin á aðalfundi sambands sveitarfélaga á suðurnesjum hafi einnig snúist um þá óvissu.

Á fundinum talaði bæjarstjórinn í Reykjanesbæ um sátt og samvinnu. Bæjarstjórinn talaði vissulega fyrir aukinni aðkomu Reykjanesbæjar í stjórn landshlutasamtakanna en fyrst og fremst hvatti hann sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum til samstöðu um uppbyggingu á svæðinu. Af ræðu hans mátti dæma að hann vildi ekki að Reykjanesbær beitti pólitísku afli sínu til að fara gegn hinum sveitarfélögunum með breytingar.

Við afgreiðslu tillagnanna var tillaga Reykjanesbæjar felld af öllum bæjarfulltrúum í minni sveitarfélögunum. Tillaga minni sveitarfélaganna var síðan samþykkt með stuðningi fulltrúa meirihlutans í Reykjanesbæ undir stjórn Árna Sigfússonar.

Á þessum fundi sýndi Árni Sigfússon á sér nýja hlið og nýtti pólitíska yfirburði sína til að ná sáttum um tillögu sem ekki var hans. Eftir 7 ára samstarf við Árna Sigfússon á vettvangi sveitarstjórna er langt frá því að ásættanlegt traust ríki á milli okkar, en á aðalfundi sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum talaði hann eins og sannur leiðtogi Suðurnesja og það var góð tilfinning.

Inga Sigrún Atladóttir
Forseti bæjarstjórnar í Sveitarfélaginu Vogum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024