SAMSTAÐA - slysalaust Ísland
Fréttir um banaslys í umferðinni koma við okkur öll og þegar mörg banaslys verða á skömmum tíma tekur fólk andköf og umræða um úrbætur verður háværari. Í umræðu síðustu daga um umferðaröryggi hafa tölur um færri banaslys á Reykjanesbraut, frá þvi að framkvæmdir hófust við tvöföldun Reykjanesbrautar, verið ofarlega á baugi. Er þar vísað til þess árangurs sem náðst hefur í fækkun banaslysa með vegabótum og áróðri þeim tengdum. En staðreyndin er að í stað allt að sex banaslysa á ári, þegar mest var, hefur enginn látið lífið á brautinni í liðlega tvö ár.
Með stofnun áhugahópsins og með sterki samstöðu íbúa svæðins var þeim árangri náð að koma ráðamönnum í skilning um mikilvægi þess að ráðast í þessa mikilvægu framkvæmd. Fyrst og fremst var það gert í þágu umferðaröryggis. Í dag dylst engum að framkvæmdin, þ.e. tvöföldun brautarinnar, hefur þegar skilað meiri árangri en nokkur þorði að vona.
Áhugahóp um tvöfalda Reykjanesbraut ber nú siðferðisleg skylda til að útfæra baráttu sína til fækkunar umferðarslysa á landinu öllu. Í málflutningi baráttuhópsins frá upphafi var lögð áhersla á að tvöföldun brautarinnar væri mikilvægasta vegafræmkvæmd landsins til að fækka slysum en jafnframt að baráttan næði til landsins alls og engin önnur vegaframkvæmd var gagnrýnd. Þegar séð er fyrir endan á framkvæmdinni hljótum við að beina sjónum okkar á aðra vegi og umferðarmannvirki sem enn eru með hærri slysatíðni en sambærilegt er annars staðar.
Áhugahópur um tvöfalda Reykjanesbraut hefur tekið þá ákvörðun að leggja sitt að mörkum til árangurs í vegabótum og fækkun umferðaslysa á Íslandi. Þetta viljum við nú gera með markvissri vinnu um fjölgun baráttuhópa um umferðaröryggi um allt land. Baráttu- og grasrótarhópa sem hver og einn hefur það hlutverk að upplýsa hættur og mögulegar úrbætur á sínu svæði og/eða landshluta. Skráning aðila innan hvers hóps verði skilvirk með þeim tilgangi að skapa sterka rödd á hverjum stað. Til að þetta takist verði hagsmunir aðildarfélaga gerðir umtalsverðir í samvinnu við samstarfsaðila. Samhliða stofnun áhugahópa um allt land verði því stofnuð samtökin SAMSTAÐA sem hefur það hlutverk að sameina þessa hópa undir einn hatt í samvinnu við FÍB, tryggingar- og olíufélög, sveitar- og félagasamtök sem og samgönguyfirvalda á Íslandi.
Með SAMSTÖÐU getum við virkt grasrótina innan hvers baráttuhóps og stuðlað þannig að bættu umferðaröryggi á landinu öllu.
Með SAMSTÖÐU getum við með einni rödd haft áhrif á stjórnvöld á hverjum tíma hvað varðar vegabætur, löggæslu og almennan áróður.
Með SAMSTÖÐU getum við haft áhrif á eftirlit og viðhald ökutækja með því markmiði að fækka alvarlegum slysum.
Með SAMSTÖÐU getum við haft áhrif á okkur sjálf, ökumenn þessa lands, til að minna okkur á þá ábyrgð sem á okkur hvílir daglega í umferðinni.
Með SAMSTÖÐU getum við náð þeim árangri að gera Ísland að slysalausu landi í umferðinni.
Á vefslóðinni www.fib.is/samstada geta áhugasamir aðilar og baráttumenn alls staðar á landinu skráð inn sinn baráttuhóp sem síðan hefur það hlutverk að fjölga aðilarfélögum hver á sínum stað undir leiðsögn SAMSTÖÐU.
Ein rödd, eitt markið – slysalaust Ísland.
Steinþór Jónsson,
formaður áhugahóps um örugga Reykjanesbraut og stjórnarmaður í FÍB.