Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Samræmum umhverfisvernd og auðlindanýtingu
Föstudagur 3. nóvember 2006 kl. 10:53

Samræmum umhverfisvernd og auðlindanýtingu

Í íslenskri stjórnmálaumræðu til síðustu ára hefur umræðan um náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda klofið þjóðina að vissu leyti. Í mínum pólitísku áherslum  er að finna nýja sýn á umræðuna. Sýn sem hugsanlega getur brúað bilið á milli andstæðra fylkinga í þessum efnum.

Fegurð og mikilfengleika íslenskrar náttúru ber að virða fullum fetum en að sama skapi ber okkur að nýta auðlindir lands og sjávar, rétt eins og öll önnur þjóðríki gera hvert á sinn hátt.

Frágangur mannvirkja

Í þessu ljósi tel ég mikilvægt að mannvirki sem reist eru til orkuöflunar séu hönnuð með réttum hætti þar sem listræn sköpun og arkitektúr fær sín notið, þá hvort í senn í sátt og samlyndi við umhverfið og atvinnuhætti þjóðarinnar. Umhverfi Hitaveitu Suðurnesja sem er frumkvöðull og einn stærsti eigandi félags er rekur baðaðstöðu og lækningamiðstöð við Bláa Lónið er lýsandi dæmi um hvernig taka skal af skarið. Fullkomin virðing við náttúru hefur verið viðhöfð við uppbyggingu Bláa Lónsins. Hitaveita Suðurnesja hefur einnig kynnt hugmyndir sínar er að lúta að viðbótum við nýja jarðvarmavirkjun sína á Reykjanesi. Þar mun rísa jarðsögusafn sem laða mun að ferðamenn í stórum stíl. Suðurnesjamaðurinn Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar, hefur einnig hugmyndir sem m.a. lúta að eldfjallaþjóðgarði á Reykjanesi. Sjálfur tel ég mögulegt að samræma starfsemi Hitaveitu Suðurnesja, sem aflar orku með vistvænni hætti en annars staðar þekkist í veröldinni og hugmynd Landverndar um eldfjallaþjóðgarð á Reykjanesi.

Niðurlagning raflína í jörð

Ég hef tekið þá pólitísku ákvörðun að berjast fyrir niðurlagningu raflína í jörð. Sú leið er dýrari en að mínu viti nauðsynleg. Eðlileg krafa er að orkufrekur iðnaður fari fram í nágrenni við sjálfa orkuöflunina. Ég get ekki fallist á þá óskynsemi að rafmagn sé flutt landshornanna á milli til stóriðjunota. Skipulagning af því tagi verður að heyra sögunni til. Með styttri vegalengdum á flutningi rafmagns skapast sá möguleiki að ná niður kostnaði þegar tekin er ákvörðun um niðurlagningu raflína. Flestir telja sjónræna mengun af völdum raflína vera mikla. Ég er þar engin undantekning. Þegar litið er til Suðurkjördæmis kemur glögglega í ljós að orkuöflun er hér sú mesta á landinu. Getum við unað því að orkan úr kjördæminu sé öll flutt á brott úr kjördæminu?

Framtíðin okkar

Unga fólkið mun taka við samfélaginu þegar fram líða stundir eins og gengur. Mér rennur blóðið til skyldunnar að upplýsa mér yngri samferðamenn um mínar hugmyndir. Sátt um umhverfisvernd og nýtingu náttúruauðlinda er grundvallaratriði fyrir framþróun í þessum efnum. Því hef ég leitað til frumkvöðla í ferðaþjónustu sem hafa útbúið spennandi myndband þar sem sjónarmið mín koma fram í samræmi við þeirra hugmyndir með skemmtilegum hætti. Það verður til sýnis á heimasíðu minni, www.gunnarorn.is frá og með 5. nóvember n.k.

Ég hvet ykkur öll til að skoða myndbandið og fylkja liði um öfluga Suðurnesjamenn í prófkjöri sjálfstæðismanna sem fara mun fram þ. 11. nóvember n.k. Ég hef brennandi vilja til þess að verða ykkar þingmaður og vinna að málum svæðisins.  Því óska ég eftir stuðningi ykkar í 3.-4. sæti.

Kær kveðja,

Gunnar Örn Örlygsson
Alþingismaður
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024