Samgöngu- og öryggisskóli Keilis
Við íslendingar stöndum frammi fyrir miklum breytingum í þjóðfélagi okkar í kjölfar fjármálakreppnunar sem gengur yfir heiminn og þeirrar staðreyndar að þrír stærstu viðskiptabankarnir okkar hafa orðið kreppunni að bráð. Þessir atburðir leiða til þess að á íslenska ríkið þarf að leggja þungar fjárhagslegar skuldbindingar ásamt því sem allur almenningur mun taka á sig auknar byrðar.
Við aðstæður sem þessar þarf að taka á ríkisfjármálum með ábyrgð og gæta ítrasta aðhalds í ríkisrekstrinum. Leita þarf allra leiða til hagræðingar og sparnaðar. Allir möguleikar eiga að vera upp á borðum í þeim efnum. En þrátt fyrir aðhald þarf að tryggja áframhaldandi sókn í menntun á öllum sviðum. Vegna mikillar menntasóknar á undanförnum árum erum við íslendingar mun betur í stakk búnir til að takast á við þá erfiðleika sem fylgja kreppunni og þeim miklu breytingum sem verða í atvinnulífinu. Því er mikilvægt að halda áfram á þeirri braut og styðja við menntun og nýsköpun í atvinnulífinu.
Lögregluskólinn
Þann 1. ágúst sl. hófst starfsemi Samgöngu og öryggisskóla sem er ein af stoðum Keilis – Miðstöð vísinda fræða og atvinnulífs. Samningur var gerður milli fagskóla Keils og Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli sem felur í sér að Keilir taki að sér að annast kennslu og þjálfun fyrir öryggisverði á flugvöllum m.a. í vopnaleit. Einnig felst í þessum samningi að Keilir sér um flugverndarnámskeið ætluð þeim sem sækja um aðgangsskírteini að flugvöllum. Á síðasta ári voru um 1.700 nemendur sem sóttu slíkt námskeið.
Þar sem þessi skóli er nú tekinn til starfa vaknar sú spurning hvort ekki sé ástæða fyrir ríkið að gera samning við Samgöngu og öryggisskóla Keilis, um að skólinn sjái um kennslu og þjálfun nemenda sem sækja sér mentunn í lögregluskólanum, tollvarðaskólanum og fangavarðaskólanum. Það er mjög margt sem styður það að lögreglumenn, fangaverðir, tollgæslumenn og starfsmenn Landhelgisgæslu verði menntaðir og þjálfarið á einum og sama stað við kjör aðstæður, eins og eru á Keflavíkurflugvelli. Keilir býður nú þegar upp á bestu aðstæður til kennslu. Kennslan getur farið fram á einum stað og landrými er nægjanlegt fyrir sérstaka þjálfun og kennslu utan dyra, sem öryggisskóla er nauðsynlegt. Á Vallarsvæðinu eru til staðar þau íþróttamannvirki sem þarf til kennslu og æfinga. Í nágrenninu er síðan alþjóðaflugvöllum þar sem nemendur geta eflaust hlotið þjálfun í landsmæravörslu og tollamálum auk annara nauðsynlegra þátta.
Auk þess sem ég tel að það hjóti að skipta töluverðu máli að á Vallarsvæðinu eru til staðar úrræði í búsetumálum bæði fyrir nemendur í lengra námi og nemendur sem sækja styttri endurmenntunarnámskeið.
Keilir nýr valkostur
Í fyrirspurnartíma á Alþingi í mars sl. spurði ég dómsmálaráðherra hvort vænta mætti að alhliða löggæslu- og öryggisskóli yrði stofnsettur á Keflavíkurflugvelli. Í svari dómsmálaráðherra kom fram að hann vildi láta kanna þann möguleika til hlítar. Hann hafði þess vegna skipað nefnd til að skoða þessi mál. En nefndin hafði þegar fyrirspurnin var lög fram ekki lokið störfum. Jafnframt kom fram hjá ráðherra að forráðamenn Lögregluskóla ríkisins telji skólann starfa við bestu aðstæður á Krókhálsi í Reykjavík og hafa tekið dræmt í flutning skólans.
Í ljósi þess að nú hefur hafið starfsemi Samgöngu og öryggisskóli Keilis tel ég fulla ástæðu til að skoða þann valkost að semja um kennslu og þjálfun við Keili með það að markmiði að styrkja og efla nám lögreglumanna, tollvarða, fangavarða og starfsmanna landhelgisgæslunnar. Þeir sem vilja sækja sér menntun á þessu sviði og fá til þess tækifæri í skóla sem er á háskólastigi eins og Keilir er, fá með því möguleika til frekara náms með því að nýta sér þá valkosti sem skólinn býður upp á til að auka við menntun sína. Landsmenn sem fylgjast með starfsemi Keilis sjá að þarna er skólaumhverfi sem á sér ekki hliðstæðu annars staðar á landinu og að umbreytingin úr herstöð í vísindasamfélag hefur tekist vel. En það er fyrst og fremst sí stækkandi fjöldi nemenda sem sækja í skólann sem vita mest og best um þá þjónustu sem á skólasvæðinu er veitt, um fjölbreytt námsframboð og um frábær búsetuúrræði sem gera þennan skóla einstakan.
Þjóðin stendur frammi fyrir gríðarlegum vanda í efnahagsmálum og ljóst að niðurskurður í ríkisfjármálum verður mjög mikill. Við þessar aðstæður verður að skoða alla möguleika. Jafnframt þrufum við að horfa til framtíðar og nýta okkar möguleika á eins hagkvæman og skynsaman hátt og mögulegt er, náum við því er það hagur okkar allra.
Björk Guðjónsdóttir
Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins
fyrir Suðurkjördæmi