Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Samfélagssetur í Reykjanesbæ
Föstudagur 19. janúar 2007 kl. 10:08

Samfélagssetur í Reykjanesbæ

Uppi eru ýmsar hugmyndir um nýtingu þess svæðis sem áður hýsti varnarliðið á Keflavíkurflugvelli. Rétt er að staldra við og velta fyrir sér þeim tækifærum sem mannvirki á svæðinu bjóða upp á. Fjölmargar hugmyndir hafa verið á lofti og ljóst að brotthvarf hersins skapar íslensku samfélagi og ekki hvað síst Suðurnesjunum mörg tækifæri. Hugmynd um Samfélagssetur Íslands er eitt af þessum tækifærum.

Hvað er samfélagssetur?
Samfélagssetur heldur utan um og stýrir vinnu og námi 18 ára ungmenna sem inna af hendi þegnskyldu í íslensku samfélagi. Í setrinu munu öll 18 ára ungmenni landsins, sem eru rúmlega 4000 í árgangi, dvelja í 12 mánuði og fá fræðslu varðandi grunn hvers samfélags. Má þar nefna: heilbrigðismál, uppeldis- og menntamál, fjármál, velferðarmál og öryggismál. Jafnframt munu ungmennin, hugsanlega í 3-6 mánuði, kynnast og inna af hendi þau störf sem eru öllum samfélögum nauðsynleg til að vaxa og dafna. Þar er fyrst og fremst um að ræða ummönnunarstörf s.s. hjúkrun, vinna á elli- og dvalarheimilum, leikskólastörf, liðveisla fatlaðra og björgunarstörf en einnig störf tengd viðhaldi og nýsköpun. Að sjálfsögðu yrðu þessi verkum sinnt undir leiðsögn.
Einnig yrði til staðar í samfélagssetrinu öflugt teymi sálfræðinga, námsráðgjafa, lækna, atvinnuráðgjafa, þjálfara, félagsráðgjafa og fleiri fagaðila.

Hvað er unnið með samfélagssetri?
Ungu fólki kostur á að kynnast grunnneti samfélagsins. Ekkert samfélag lifir án heilbrigðis- og menntakerfis en samfélagsetrið tryggir að allir Íslendingar hafi af eigin raun kynnst því að hlutirnir gerast ekki af sjálfu sér heldur er fólk og mannauður sem stendur á bak við þjónustu sem öllum finnst sjálfsögð og enginn vill vera án.
Tryggt verður að enginn einstaklingur þurfi að leggja af stað út í fullorðinsárin óviss um sína stöðu, hvort sem er líkamlega, andlega, fjárhagslega eða námslega án þess að samfélagið hafi kortlagt nákvæmlega með hverjum og einum einstakling hans drauma, vonir og þrár í lífinu.
Jafnframt munum við tryggja að út í samfélagið komi agaðir einstaklingar en meint agaleysi íslensku þjóðarinnar hefur verið eitt af þeim vandamálum sem hefur verið umtalað á seinustu árum. Þörfin er fyrir hendi. Íslensk æska kýs eindregið að alast upp við aga og reglur en búa þó við hlýju og væntumþykju.

Hvað græðir svo Reykjanesbær?
Fyrir utan góða nýtingu á auðum mannvirkjum í yfirgefnu fyrrum 5000 manna þorpi mun mikil atvinna skapast í Reykjanesbæ. Samfélagssetrið kallar á mörg störf t.d. umsjónarmann heimila sem gæta og búa með ungmennum, húsvarðastörf, ökukennslu svo fátt eitt sé nefnt. Jafnframt er ekki loku fyrir það skotið að sum verkefni ættu að vera í einkaframkvæmd. Að lokum er augljós kostur að samfélagssetur mun fjölga til muna háskólastörfum á Suðurnesjum.


Gissur Jónsson
Gissur gefur kost á sér í 4.-6. sæti
 í prófkjöri Framsóknarflokksins í
Suðurkjördæmi 20. janúar næstkomandi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024