Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Samfélagsleg ábyrgð stórfyrirtækja
Miðvikudagur 25. september 2013 kl. 11:52

Samfélagsleg ábyrgð stórfyrirtækja

-er það meðvituð ákvörðun stjórnvalda að Suðurnes verði láglaunasvæði?

Löngum hefur því verið haldið fram að Suðurnesin séu eitt stærsta láglaunasvæði landsins. Þeir sem halda slíku fram hafa rétt fyrir sér.

Það var stundum haft á orði á tímum Varnarliðsins að það mætti glögglega sjá hvaða starfsmenn þess hefðu nýlega fengið stöðuhækkun, með því að lesa fasteignaauglýsingar staðarblaðanna. Þeir drifu í því að selja húsin sín og flytja burt af Suðurnesjum því auka mátti nýhækkðar tekjurnar með bílastyrk væri búseta utan vinnusvæðis raunin.

Nú berast þær fréttir að eitt af stórfyrirtækjum svæðisins, ríkishlutafélagið Isavia, sé að flytja aðflugsþjónustu að Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli, sem stýrt hefur verið úr flugturninum í Keflavík í áratugi, í flugstjórnarmiðstöðina í Reykjavík. Opinbera skýringin á þessum breytingum eru skipulageðlis, en almannarómur hefur það fyrir satt að hér megi líka kenna um stjórnendavanda í flugturninum.
Nú verður að líta til þess að ef svo væri að aðstaða biði þessarar aðflugsstarfssemi í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík mætti betur réttlæta þessa gjörð en svo er ekki.
Fara verður í stórkostlegar breytingar þar á bæ með tilheyrandi kostnaði.

Það sem vekur þó helst upp spurningar í þessu máli er að svo virðist sem að ríkishlutafélagið hafi tekið þessa ákvörðun að flytja störf þessara flugumferðastjóra frá Keflavík til Reykjavíkur í kyrrþey því lítið fréttist af þessum gjörningi fyrr en nýverið. Ákvörðunin var síðan tilkynnt starfsmönnum nýlega. Ekki öllum til gleði. Eigandinn, ríkið, og handhafi eina hlutabréfsins í fyrirtækinu einskis spurður. Eða hvað? Hvar eru nú öll fyrirheitin um að styðja við atvinnuuppbyggingu svæðisins?

Það er stóralvarlegt mál fyrir samfélagið á Suðurnesjum þegar störf vel launaðra starfsmanna eru flutt burt af svæðinu. Fyrirsvarsmenn Isavia ohf. hafa smátt og smátt verið að týnast í burtu og er nú er svo komið að fáir ef nokkur stjórnandi þessa ríkisfyrirtækis búa lengur á Suðurnejsum, þrátt fyrir að meginstarfssemi fyrirtækisins sé enn á Keflavíkurflugvelli. Það er keyrt á milli á fundi.

Með breytingu á starfshögum þessa vel menntaða fólks sem jöfnum höndum hafa haft svokölluð turnréttindi og aðflugsréttindi er ljóst að menn viðhalda tæplega öðru en aðflugsréttindum sínum eftir að þessar breytingar taka gildi. Þá þarf að þjálfa nýja starfsmenn upp og slíkt er ekki gefið. Ríkishlutafélagið hefur sjálft reiknað með að það kosti 40-50 milljónir að búa til nýjan flugumferðarstjóra. Þar eru menn fljótir að komast í stóru tölurnar 500 til 1.000.000.000.

Stórhætta er líka á, þegar starfsstöðvar manna eru fluttar hreppaflutingum, að þeir taki sig sjálfir upp og flytji sig og sínar fjölskyldur burt af svæðinu og það er missir af vellaunuðu fólki á Suðurnesjum þar sem engin ofgnótt er af vellaunuðum starfsmönnum.

Það er umhugsunarefni fyrir stjórnvöld sem lofað hafa oft og iðulega að styðja við bakið á atvinnuuppbyggingu svæðisins að láta það athugasemdalaust líða fram hjá sér þegar eitt af fyrirtækjum ríkisins markvisst flytur vel launuð störf burt af svæðinu.  Það er eðlileg krafa að stórfyrirtæki eins og Isavia ohf. axli sínar samfélagslegu skyldur.

Það er á vitorði þeirra sem eru í forsvari í menningarmálum, listum og íþróttastarfssemi á Suðurnesjum að menn fari iðulega bónleiðir til búðar að óska eftir stuðningi frá fyrirtæki á borð við Isavia ohf. Staðlað svar frá ríkishlutafélaginu er að þeir hafi markað sína stefnu í styrkjamálum og því miður sé á engan hátt hægt að verða við beiðni viðkomandi.

Það er raunar athyglisvert að styrkir Isavia ohf. hafi runnið til björgunarsveita þessa lands, sem er í sjálfu sér góðra gjalda vert. Óneitanlega renna þó á menn tvær grímur þegar í ljós kemur að einmitt þar gagnast það ríkishlutafélaginu best að styðja enda eru björgunarsveitir veigamikill hlekkur í neyðaráætlunum flugvalla. Eins þegar í ljós kemur að ríkishlutafélagið hefur  lagt niður sínar eigin björgunarsveitir á flugvöllum landsins.

Isavia er opinbert hlutafélag að fullu í eigu íslenska ríkisins. Það fyrirkomulag að búa til eitthvað skrípi um ríkisstofnanir sem kallast opinbert hlutafélag er tilefni fyrir ríkisvaldið að endurskoða. Hvergi á Íslandi er starfssemi Isavia ohf. meiri en á Keflavíkurflugvelli. Það að fyrirtæki í 100% eigu ríkisins skuli jafn og þétt gjaldfella mikilvægi flugvallarins í Keflavík og flytja störf frá Keflavík er stór undarleg. Þar verður að gera þá kröfu að eigandinn grípi inn í og hafi vit fyrir stjórn Isavia ohf, ekki bara vegna fordæmisins og vandlætingarinnar sem þessi ákvörðun þeirra sendir Suðurnesjamönnum, heldur er hún líka stórundarleg í ljósi þeirra loforða stjórnvalda um að standa vörð um atvinnuuppbyggingu á svæðinu.

Í ljósi kostnaðarins sem af öllu þessu hlýst hlýtur það að vera okkur, sem eru í forsvari kjaramála meginþorra starfsmanna þessa ríkishlutafélags, gleðiefni hversu fullir sjóðir fyrirtækisins eru af fé.

Komandi samningar ættu samkvæmt þessu að stranda á einhverju öðru en peningum.

Kristján Jóhannsson
Formaður og framkvæmdastjóri Félags flugmálastarfsmanna ríkisins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024