Samfélag fyrir alla - XS
– Heba Maren Sigurpálsdóttir skrifar
Félagsstarf ungmenna skiptir miklu máli og geta ungmenni almennt valið um ýmislegt hvað þau vilja gera eftir að skóla líkur á daginn. Þegar ég tala um ungmenni eru það fólk á aldrinum 16 – 25 ára.
Ungmenni með fötlun hafa ekki sömu möguleika og aðrir þegar kemur að tómstundum og atvinnu. Við hjá S-listanum viljum bæta lífsgæði þeirra þegar kemur að tómstundum með því að nýta t.d. 88 húsið sem er ungmennahús í Reykjanesbæ. Þar gætum við komið af stað skemmtilegu úrræði eftir að skóla líkur á daginn, þar sem ungmenni hittast og sinna sínum tómstundum í umhverfi sem sniðið er að aðstæðum ungs fólks. Hægt væri að sinna þessu starfi í samvinnu við öll sveitafélögin á Suðurnesjum.
Almennt þegar ungmenni klára stúdentspróf velja þau að fara t.d. beint í háskóla eða vilja skoða heiminn áður en áframhaldandi nám hefst.
Þegar fjögurra ára námi á starfsbraut fyrir ungmenni með fötlun lýkur hafa þau eins og í tómstundunum litla möguleika á áframhaldandi námi eða vinnu. Það sem við viljum gera er að auka val hjá þessum hópi með því að efla og styrkja atvinnulífið í að ráða fatlaða einstaklinga í vinnu.
Það skiptir svo miklu máli að við búum í samfélagi þar sem allir einstaklingar geta notið sín og verið virkir þátttakendur í samfélagi fyrir alla. X við S er skref í átt að því samfélagi.
Með vinsemd og virðingu
Heba Maren Sigurpálsdóttir þroskaþjálfi
12. sæti S-listanum í Reykjanesbæ