Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Samfélag fjölbreytileikans
Föstudagur 29. mars 2013 kl. 12:50

Samfélag fjölbreytileikans

Fjölbreytt úrval flokka hyggjast bjóða fram lista til næstu alþingiskosninga. Áhyggjur af gerð og hönnun kjörseðilsins vegna fjölda framboða eru að valda einhverjum hugarangri, sem er bara got mál, að ég tel. Björt framtíð er ein af þeim hreyfingum sem um ræðir. Þar kem ég inn í söguna en ég gef kost á mér í annað sæti fyrir Suðurkjördæmi. Ég, eins og margir aðrir innan okkar hóps, er nýgræðingur í landspólitíkinni en ég var viðloðandi bæjarpólitíkina þau ár sem ég bjó í Sandgerði.

Í samfélaginu okkar eru góðir hlutir að gerast. Hér er samankominn fjölbreyttur hópur fólks með skoðanir og hugmyndir sem eru, að áliti margra, ýmist góðar, skrýtnar, klikkaðar, fyndnar, heimskulegar, skynsamlegar og þar fram eftir götunum. Fjölbreyttar skoðanir á fjölbreyttum hugmyndum. Mannvit í allri sinni dýrð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Björt framtíð er frjálslynd og bjartsýn miðjuhreyfing, stofnuð af fólki úr öllum áttum samfélagsins, fólki sem vildi leggja sitt af mörkum til að breyta núverandi andrúmslofti sem ríkir í stjórnmálum á Íslandi. Frambjóðendur vilja sameina krafta sína til að reyna að bæta samfélagið sitt. Fólk sem lítur á þingmennsku sem samfélagsvinnu og er orðið þreytt á að horfa upp á þau átök og óvirðingu sem einkennt hefur íslensk stjórnmál.

Í stefnu Bjartrar framtíðar má sjá hvernig þjóðfélag við viljum. Virðing fyrir fjölbreytileikanum, mannréttindum og öðrum manneskjum. Ef ég vitna nú í eitt uppáhalds máltækið mitt: ,,Þú þarft ekki að slökkva ljós annarra til að þitt skíni skærar”. Við erum frjálslynd, umhverfisvæn og alþjóðlega sinnuð. Við viljum að traust ríki milli einstaklinga og að við getum leitað lausna í sameiningu, hvort sem nafnið er Jón eða séra Jón.

Ég hvet þá sem vilja kynnast okkur betur að skoða heimasíðuna okkar www.bjortframtid.is. Þar má finna upplýsingar um markmið BF, frambjóðendur og taka þátt í málefnastarfinu.  Þar er opinn fundur allan sólarhringinn og allir geta verið með.

Með bestu kveðju og ósk um bjarta framtíð

Guðlaug Elísabet Finnsdóttir, 2. sæti á lista Bjartrar framtíðar í Suðurkjördæmi