Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sameinumst um fyrstu skrefin
Föstudagur 15. febrúar 2013 kl. 08:26

Sameinumst um fyrstu skrefin

Stefnt er að því að hefja uppbyggingu á íþróttasvæðinu í Grindavík næsta sumar. Sú uppbygging á að taka 4 ár og kostar um 700-800 milljónir. Margir eru mjög ánægðir með fyrirhugaðar framkvæmdir en það eru aðallega þrjár athugasemdir sem hafa heyrst framar öðrum. Í fyrsta lagi er gagnrýnt að farið sé í jafn dýra framkvæmd sem mun leiða til aukins rekstrarkostnaðar hjá bæjarfélaginu. Í öðru lagi eru gerðar athugasemdir við að óskum körfuknattleiksdeildarinnar hafi ekki verið mætt þar sem óskað var eftir nýju íþróttahúsi í stað þess að stækka núverandi hús. Í þriðja lagi vill knattspyrnudeildin sér aðstöðu í stað þess að deila aðstöðu með öðrum deildum UMFG.

Mikilvægt er að taka fram að uppbyggingin er fjármögnuð án lántöku og er henni dreift yfir fjögurra ára tímabil til að tryggja að hitaveitusjóður Grindavíkur fari aldrei undir milljarð. Uppbyggingunni er einnig skipt niður í fjóra áfanga þannig að eftir hvern áfanga verði hægt að hægja á uppbyggingu ef aðstæður krefjast þess.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Óskir körfuknattleiks- og knattspyrnudeildarinnar eru vel skiljanlegar enda vilja forsvarsmenn deildanna allt það besta fyrir sitt fólk. Bæjarfulltrúar verða hins vegar að tryggja að skattpeningar bæjarbúa séu nýttir á skynsamlegan hátt. Sú uppbygging sem stefnt er að núna er málamiðlunartillaga milli þarfa íþróttahreyfingarinnar, almennings, starfsfólks og bæjarsjóðs. Í ljósi athugasemda þessara deilda hefur einnig verið gert ráð fyrir því á deiliskipulagi svæðisins að síðar geti risið nýtt íþróttahús sem og aðstaða við Hópið, fjölnotaíþróttahús Grindvíkinga.

Ljóst er að sú uppbygging sem mun eiga sér stað á næstu fjórum árum er aðeins fyrsta skrefið. Muni bæjarfélagið halda áfram að vaxa og fjöldi iðkenda  aukast  þarf að halda uppbyggingunni áfram. Einnig er  aðkallandi að bæta aðstöðu sundiðkenda  og vonandi mun það koma í kjölfar þessarar uppbyggingar.
Samþykkt var á bæjarráðsfundi 5. febrúar síðastliðinn að halda uppbyggingunni áfram í samræmi við tillögu nefndar um skipulag og uppbyggingu íþróttamannvirkja sem kynnt var í janúar 2012. Í tilefni þess var lögð fram eftirfarandi greinargerð þar sem fram kemur ítarlegur rökstuðningur.
Greinargerð B-, G- og S-lista á bæjarráðsfundi 5. febrúar 2013.

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 28. september 2011 að skipa vinnuhóp sem hafði það að markmiði að leggja fram tillögu um skipulag íþróttasvæðis Grindavíkurbæjar og uppbyggingu mannvirkja til næstu ára. Hópnum var falið að vinna á grunni skýrslu nefndar um Framtíðaruppbyggingu á íþróttasvæði Grindavíkur. Sú skýrsla fól í sér uppbyggingu fyrir tæpa þrjá milljarða króna. Ljóst var að ekki væri hægt að fara í alla þá uppbyggingu í einu og þurfti því að taka ákvörðun um hvaða framkvæmdir ættu að hafa forgang á næstu árum.

Bæjarstjórn setti verkefninu auk þess eftirfarandi forsendur:

Að sameina inngang og afgreiðslu íþróttahúss og sundlaugar með það markmiði að nýta starfsfólk sem best og að inngangurinn sé skemmtilegur og aðlaðandi fyrir gesti og gangandi.
Að íþróttahúsið geti nýst sem veislusalur fyrir 350-400 gesti á snyrtilegan og einfaldan hátt.
Að körfuknattleiksvöllur verði löglegur.
Að bæta æfingaaðstöðu fyrir júdódeild og taekwondo.
Að bæta æfingaaðstöðu og áhaldageymslu fyrir fimleikadeild.
Að almenningsíþróttir fái að njóta sín.
Að húsnæðið rúmi sameiginlega afstöðu fyrir deildir UMFG til funda og skrifstofuhalds.
Að byggingin sé í samræmi við aðrar byggingar á reitnum, látlaus og að fermetrar nýtist sem best.

UMFG var með fulltrúa í vinnuhópnum sem tók virkan þátt í mótun tillögunnar. Auk þess var haft samráð við deildir UMFG, m.a. á kynningarfundi þann 12. desember 2011. Nokkrar athugasemdir komu fram á fundinum. Knattspyrnudeild-, körfuknattleiksdeild- , og taekwondódeild UMFG skiluðu síðar inn skriflegum athugasemdum sem og aðalstjórn UMFG. Vinnuhópurinn fjallaði um athugasemdirnar og var tekið tillit til þeirra eftir því sem efni og ástæður þóttu til. Lokaskýrslu hópsins var skilað til bæjarstjórnar þann 25. janúar 2012 og komu athugasemdirnar fram í skýrslunni. Í kjölfar skýrslunnar var unnið áfram með málið og skipuð byggingarnefnd, þar sem UMFG á fulltrúa sem hefur tekið virkan þátt í starfi nefndarinnar og komið ábendingum um útfærslur á framfæri. Verkefnið hefur nú verið í vinnslu í tvö og hálft ár og ljóst er að haft var samráð við UMFG á öllum stigum málsins og er það nú á lokastigum hönnunar. Heildarkostnaður við undirbúning og hönnun nálgast nú 10 milljónir kr. Einnig fundaði bæjarráð með fulltrúum deilda þann 15. janúar 2013.

Snemma árs 2012 komu fram athugasemdir frá körfuknattleiksdeild UMFG þar sem óskað var eftir því að stækkun á íþróttahúsinu yrði frestað og kostir þess að byggja nýtt íþróttahús yrðu skoðaðir betur. Í framhaldinu var farið vel yfir kosti og galla þess að byggja nýtt íþróttahús í stað þess að stækka núverandi hús. Bæjarstjórn komst síðan að þeirri niðurstöðu sumarið 2012 að halda ætti áfram með tillögu nefndarinnar um að stækka núverandi húsnæði í stað þess að byggja nýtt íþróttahús. Rökin voru meðal annars þau að byggingarkostnaður og rekstrarkostnaður á húsnæði sem rúmaði löglegan körfuboltavöll væri mun meiri en stækkun á núverandi húsi. Með því að stækka núverandi íþróttahús eru Grindvíkingar komnir með glæsilegt keppnisíþróttahús. Á fundi bæjarráðs í janúar 2013 óskaði körfuknattleiksdeildin eftir því að þessi afstaða yrði endurskoðuð. Því til stuðnings voru lagðar fram upplýsingar um tímaþörf í nánustu framtíð. Síðustu vikur hafa því bæjarfulltrúar farið yfir þessa ákvörðun að nýju og komist að sömu niðurstöðu og áður.

Útreikningar sýna að tímaþörf verður uppfyllt við stækkun íþróttahússins ásamt því að auka opnunartíma.
Athugasemdir knattspyrnudeildar UMFG hafa snúist að því að knattspyrnudeildin vill sjá sína framtíðaraðstöðu byggjast upp við Hópið. Vert er að benda á að bæjarstjórn samþykkti á bæjarstjórnarfundi þann 28. september 2011 að markmið uppbyggingarinnar á íþróttasvæðinu yrði að sameina aðstöðu fyrir deildir UMFG til funda og skrifstofuhalds. Einnig myndi aðstaðan rúma búningsklefa sem snéru beint að aðalvelli knattspyrnudeildarinnar. Á fjögurra ára fjárhagsáætlun Grindavíkurbæjar er einnig gert ráð fyrir því að byggja aðstöðu við Hópið, aðstöðu sem mun rúma salerni og aðstöðu til veitingasölu sem nýtist Hópinu yfir vetrartímann en stúkunni yfir sumartímann.

Vert er að vekja athygli á því að bæði nefnd um Framtíðaruppbyggingu á íþróttasvæði Grindavíkur sem skilaði skýrslu í ágúst 2009 sem og nefnd um skipulag íþróttasvæðis Grindavíkur og uppbyggingu mannvirkja til næstu ára sem skilaði skýrslu í janúar 2012, komust að sömu niðurstöðu varðandi það hvað ætti að vera upphafsáfangi. Fyrsti áfangi ætti að sameina afgreiðslur sundlaugar og íþróttahúss ásamt því að byggja upp félagsaðstöðu fyrir UMFG og nú Kvenfélags Grindavíkur. Það er mjög mikilvægt að sameina þessar afgreiðslur til þess að samnýta starfsfólk og geta þannig haft íþróttamiðstöðina opna lengur. Íþróttamiðstöðin er meira en aðstaða fyrir deildir UMFG en íþróttahúsið og sundlaugin þjóna einnig grunnskólabörnum ásamt því sem almenningur nýtir þessa aðstöðu auk líkamsræktarstöðvarinnar. Einnig er íþróttasvæðið vinnustaður fjölda fólks bæði starfsfólks íþróttamiðstöðvarinnar, kennara og þjálfara. Með nýjum lögum frá Alþingi er þess einnig krafist að bætt sé við starfsfólki til eftirlits við sundlaug. Það er því mjög mikilvægt að sameina starfsstöðvar íþróttahús og sundlaugar svo hægt sé að samnýta starfsfólkið betur og uppfylla þannig kröfur laga um öryggi á sundstöðum án þess að auka rekstrarkostnað of mikið. Sameining deilda UMFG á eitt svæði mun vonandi skila sér í auknu samstarfi deildanna öllum til hagsbóta líkt og reynsla annarra sveitarfélaga hefur sýnt.

Í fyrsta sinn í langan tíma er nú komin fjögurra ára áætlun varðandi uppbyggingu á íþróttasvæðinu. Þessi áætlun gerir ráð fyrir því að á næstu fjórum árum verði byggt fyrir 700-800 milljónir króna á íþróttasvæðinu. Öll útfærslan tekur mið að því að reynt er að bæta úr brýnustu þörf allra deilda. Engin deild fékk sínar ýtrustu kröfur uppfylltar en þó var reynt að gera eins vel við allar deildir og hægt er innan skynsamlegra marka. Við útfærslu á uppbyggingaráætluninni var mikilvægt að geta stjórnað uppbyggingarhraðanum. Verkefninu er því áfangaskipt og hvenær sem er hægt að flýta eða fresta frekari uppbyggingu. Ástæðan er sú að nauðsynlegt er að geta stýrt hraðanum í samræmi við fjárhag Grindavíkurbæjar, stöðu í efnahagsmálum og aðstæður í byggingariðnaðinum.

Þessi uppbygging mun ekki þýða að aldrei aftur verði byggt íþróttamannvirki í Grindavík. Deiliskipulag íþróttasvæðisins gerir ráð fyrir stórum byggingareit í kringum Hópið og er vel hægt að byggja annað íþróttahús síðar meir, hvort sem það er við Grunnskólann við Ásabraut eða við íþróttasvæðið.
Uppbygging íþróttasvæðisins, líkt og önnur uppbygging bæjarfélagsins, er verkefni sem lýkur aldrei en einhverstaðar verður að byrja. Vonandi getum við öll sameinast um þessi fyrstu skref og fagnað því að árið 2016 verður komin stórbætt aðstaða fyrir þær deildir UMFG sem og fyrir almenning, hvort sem það eru iðkendur eða áhorfendur.

Virðingarfyllst,
Bryndís Gunnlaugsdóttir, Kristín María Birgisdóttir og Marta Sigurðardóttir
Oddvitar B-, G- og S-lista er mynda bæjarráð Grindavíkur