Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sameinumst í heilsueflingu – bætt aðstaða, aðgengi og staðsetning
Fimmtudagur 28. apríl 2022 kl. 10:24

Sameinumst í heilsueflingu – bætt aðstaða, aðgengi og staðsetning

Jón Ragnar Ástþórsson,
skipar 3. sæti Bæjarlistans í Suðurnesjabæ.


Suðurnesjabær hefur nú verið til í fjögur ár eftir sameiningu Sandgerðis og Garðs. Framfaraskref sem tekið var með hagsmuni íbúa þessara fyrrum sveitarfélaga í huga til lengri tíma litið. Að mínu mati hefur sú sameining komið vel út og vel stæðu sveitarfélagi hefur verið komið á laggirnar. Við sem íbúar sveitarfélagsins erum líka að læra að lifa í þessum raunveruleika og hugsa um þessa tvo bæjarkjarna sem einn. Það getur reynst okkur áskorun en í því felst að mínu mati leiðin til að sameiningin takist sem best. Það er skiljanlegt að það geti reynst fólki erfitt þar sem að þónokkuð bil er á milli bæjarkjarnanna tveggja og má því kannski segja að bilið sé huglægt og hlutlægt. Okkar verkefni sem bæjarbúa og bæjaryfirvalda er að minnka þetta bil með þeim ákvörðunum sem teknar eru.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ein sú albesta forvörn sem börn og ungmenni fá er skipulagt íþróttastarf. Margar rannsóknir styðja við þessa fullyrðingu og ég held við getum flest fallist á hana. Til að við sem samfélag getum fullnýtt okkur þessar upplýsingar þá þurfum við að búa svo um hnútana hvar sem því verður við komið að sem flestir getið fundið íþróttagrein við sitt hæfi. Börn og ungmenni þurfa að finna sína grein og aðstæður til að iðka íþróttir þurfa að vera ásættanlegar. Einnig þarf að bjóða upp á æfingatíma sem fellur að dagskrá barna og aðgengi þarf að vera eins og best verður á kosið.

Suðurnesjabær er aðili að heilsueflandi samfélagi og í slíku samfélagi á heilsa og líðan íbúa að vera í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum. Það er því okkar skylda að koma til móts við þessar mikilvægu þarfir. Ein af stóru lausnunum í þessu máli teljum við í Bæjarlistanum X-O vera að koma á laggirnar fjölnota íþróttahúsi. Notagildi fjölnota íþróttahúss er mikið og kemur það til með að nýtast mörgum íþróttagreinum og öllum kynslóðum. Um leið opnast fyrir fleiri tíma í íþróttahúsunum sem nú eru til staðar til að stunda þær greinar sem eru best til þess fallnar að stunda í slíkum húsum. Þetta bætir aðstöðu fyrir knattspyrnuna, sem fær þá aðstöðu sem er fullkomlega samkeppnishæf við það sem best gerist og einnig fá aðrar greinar eins og t.d. körfubolti fleiri og betri æfingatíma. Í fjölnota íþróttahúsi opnast líka möguleikar á vetraraðstöðu fyrir golfara og flugukast svo dæmi séu tekin. Eins mun slíkt hús nýtast fyrir göngur og heilsueflingu eldri borgara eins og dæmin sýna frá nágrannasveitarfélögum okkar ásamt því að geta nýst fyrir sýningar, menningarviðburði og bæjarviðburði.

Staðsetning fjölnota íþróttahúss er mikilvæg hvað varðar aðgengi allra bæjarbúa að heilsueflingu. Einnig teljum við að með því að hugsa til framtíðar og byrja strax að byggja upp þjónustu fyrir íbúa Suðurnesjabæjar á milli bæjarkjarnanna munum við byrja á að loka þessari huglægu gjá sem að er að einhverju leyti milli íbúa byggðarkjarnanna. Fjölnota íþróttahús á því að okkar mati að vera staðsett mitt á milli bæjarkjarnanna, nálægt golfvellinum okkar. Það er frábær upphafspunktur í að tengja kjarnana saman og verða okkar sameiningartákn, auk augljósu kostanna sem felast í nálægðinni við golfklúbbinn. Í kjölfarið gætum við haldið áfram að byggja þetta svæði upp með ýmis konar heilsurækt og standa þannig undir því að vera heilsueflandi samfélag með fjölbreyttu framboði af útiveru og heilsueflingu. Göngustígurinn sem opnaður var nýlega var frábært framfaraskref og hjálpar mikið til í því að gera þessa staðsetningu enn fýsilegri og auðveldar notendum hallarinnar á öllum aldri aðgengi að henni. Einnig þarf að setja á laggirnar frístundabíl sem auðveldar aðgengi að íþrótta- og æskulýðsviðburðum enn meira og minnkar bilið á milli bæjarkjarnanna og gerir íbúum kleift að sækja viðburði bæjarfélagsins óháð staðsetningu og stöðu.

Við í Bæjarlistanum í Suðurnesjabæ stöndum fyrir faglega forystu og hugrekki í ákvarðanatöku.

X við O í kosningum 14. maí 2022.