Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sameiginleg sýn á nám og velferð barna
Sunnudagur 6. mars 2016 kl. 08:00

Sameiginleg sýn á nám og velferð barna

Við trúum því að allir foreldrar vilji það besta fyrir barnið sitt. Við trúum því líka að allir skólar og starfsmenn þeirra vilji það besta fyrir nemendur sína. Þegar þessir kraftar mætast með umburðarlyndi, skilningi og jákvæðni þá gerist eitthvað stórkostlegt.  

Rannsóknir sýna fram á að virk þátttaka foreldra og jákvæð viðhorf til skóla og náms skilar sér í betri námsárangri og líðan barna. Það er ekki þar með sagt að foreldrar eigi að vera hlutlausir í umræðunni um nám barna sinna. Þvert á móti þá er gott að hafa skoðun og ræða hana við þá sem hlut eiga að máli. Samstarf er lykillinn að farsælli skólagöngu og skilin á milli heimilis og skóla eru minni en sumum kann að virðast. Það má segja að börnin fari með fjölskylduna í skólann og komi með kennarann heim í þeim skilningi að ríkjandi viðhorf og umræða á heimilinu skilar sér gjarnan í skólann. Ef við venjum okkur á að tala jákvætt um vinnustað barnsins okkar og nám þess þá er mun líklegra að barnið sé jákvætt, hafi trú á eigin getu og líði vel í skólanum. Hið sama má segja um skólann, börn eru móttækileg og líta gjarnan á kennarann sinn sem fyrirmynd. Því er afar mikilvægt að hann komi fram af fagmennsku og virðingu og hafi velferð barnsins ávallt að leiðarljósi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Undanfarnar vikur hafa birst greinar í Víkurfréttum og á vefnum um mótun nýrrar menntastefnu í Reykjanesbæ. Foreldrasamstarf og samstarf heimlis og skóla er veigamikill þáttur í stefnunni.

Með sameiginlegri sýn þeirra sem að barninu koma á nám og velferð þess náum við árangri. Sameiginleg sýn næst með ígrundun og samræðum, þess vegna hvetjum við alla foreldra til þess að mæta á íbúaþing í Stapa þriðjudaginn 8. mars sem mun standa frá klukkan 17:00 til 19:00 og leggja sitt af mörkum til skólasamfélagsins öllum börum til heilla.

Anna Hulda Einarsdóttir

 

 

 

 

Anna Sigríður Jóhannesdóttir,

Verkefnastjórar FFGÍR (Foreldrafélög grunnskólanna í Reykjanesbæ)