Saman í liði
Það liggur fyrir að Suðurnesjamenn þurfa aukna fjármuni frá ríkinu til að bæta umferðaröryggi á svæðinu og styrkja rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Þingmenn Suðurkjördæmis eru einhuga um þessar áherslur. Við hlustum á þau skilaboð sem við fáum frá íbúum og sveitastjórnarfólki, komum þeim áleiðis til framkvæmdavaldsins og tökum umræðuna á Alþingi. Með heiðarlegu samtali og samvinnu náum við árangri.
Hvað fá Suðurnesin?
Líklega höfum við Íslendingar sett enn eitt heimsmetið við gerð fjárlaga fyrir árið 2018 þar sem þau voru unnin á örskömmum tíma, sem er reyndar ekki til fyrirmyndar. Við hefðum viljað fá meira til okkar svæðis, sérstaklega í ljósi þess að hér er fordæmalaus fjölgun íbúa og ferðamanna, sem hefur í raun ekki verið brugðist við innan stjórnkerfisins. En við ætlum að breyta því. En það sem að við fengum að þessu sinni voru 200 milljónir sem sérmerktar voru framkvæmdum á Grindavíkurvegi. Einnig fengum við 75 m.kr. í almenningssamgöngur, sem brýn þörf var á. Öðrum samgönguverkefnum á svæðinu fylgjum við svo eftir við gerð samgönguáætlunar, sem nú stendur yfir. Í fjárlögum var ákveðið að 600 m.kr. færu til reksturs heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, auk 200 m.kr. til tækjakaupa hjá sömu stofnunum. Heilbrigðisráðherra hefur heimsótt HSS og kynnt sér stöðu hennar. Við erum því vongóð um að úthlutun ráðherra verði Suðurnesjafólki í hag.
Skólarnir okkar
Á Suðurnesjum eru reknar mjög mikilvægar menntastofnanir. Okkur er mikið í mun að framtíð þessara skóla sé tryggð þar sem að þeir hafa sýnt það og sannað að þeir styrkja samfélagið okkar verulega. Í fjárlögum 2018 fékk Fjölbrautaskólinn 50 m.kr. svo hægt væri að hefja viðbyggingu vegna félagsaðstöðu nemenda. Verkefni sem hafði tafist og var orðið verulega aðkallandi. Menntamálaráðherra hefur nú bæði Keili og Fisktækniskólann til ítarlegrar skoðunar, þ.e. hvernig megi styrkja stöðu þeirra og mun funda með forsvarsmönnum skólanna innan skamms.
Verkefnalistinn
Á lista okkar þingmanna eru auðvitað mun fleiri, en ekki síður aðkallandi verkefni. Þar má m.a. nefna nauðsyn þess að bæta enn frekar við fjármuni til reksturs lögreglunnar og sjúkraflutninga. Í fjárlögum 2018 er gert ráð fyrir 100 m.kr. potti til að styrkja sjúkraflutninga á landsvísu, sem heilbrigðisráðherra úthlutar og síðan voru settar 400 m.kr. vegna átaks vegna kynferðisbrota. Lögreglan á Suðurnesjum hefur staðið sig afar vel á því sviði og mun njóta góðs af framlaginu. En betur má ef duga skal.
Áfram gakk
Að þessu sögðu þá langar okkur að þakka fyrir þann stuðning sem við finnum í samfélaginu. Umræðan er opin, það hafa allir skoðun á öllu og það er gott. Við þurfum upplýsingar til þess að geta verið sterkir málsvarar ykkar á Alþingi. Næstu skref eru að fylgja upptöldum verkefnum eftir við gerð fjármálaáætlunar til næstu fimm ára og að fylgja hagsmunum Suðurnesja eftir í samtali við hvert fagráðuneyti fyrir sig í samvinnu við sveitastjórnarfulltrúa á svæðinu og forstjóra viðkomandi stofnana.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.