Saman getum við snúið bænum til betri vegar
Á aðalfundi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ sem haldinn var miðvikudaginn 5. nóvember voru þau Aðalheiður Hilmarsdóttir, Björn H. Guðbjörnsson, Harpa Eiríksdóttir, Loftur H. Jónsson og Vilhjálmur Skarphéðinsson kosin í stjórn félagsins. Stjórnin mun skipta með sér verkum og velja formann á fyrsta fundi sínum. Í varastjórn voru kosin þau Hilmar Hafsteinsson og Vilborg Jónsdóttir og Jóhannes Sigurðsson og Guðný Kristjánsdóttir voru kosin skoðendur reikninga félagsins. Auk þess voru 79 félagsmenn kosnir sem fulltrúar á landsfund Samfylkingarinnar 2015 og í kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.
Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs og oddviti Samfylkingar og óháðra í bæjarstjórn Reykjanesbæjar fór yfir fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar á fundinum og greindi frá næstu skrefum í Sókninni, aðgerðaráætluninni sem hafin er til þess að snúa við alvarlegri stöðu bæjarins. Miklar umræður urðu á fundinum og eftirfarandi ályktun var samþykkt:
„Að loknum borgarafundi í Stapa er íbúum Reykjanesbæjar loksins ljósar afleiðingar fjármálastjórnar sjálfstæðismanna undanfarinn áratug.
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar hafa gagnrýnt harðlega fjárhagsáætlanir og fjármálastjórn sjálfstæðismanna undanfarinn áratug og varað við alvarlegum afleiðingum. Fyrsta verk bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar á síðasta kjörtímabili var t.d. að leggja fram tillögu um óháða úttekt á fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar og stjórnsýslu bæjarins haustið 2010.
Tillagan var felld af meirihluta sjálfstæðismanna en kröfunni var haldið á lofti af bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar allt kjörtímabilið. Í maí sl. ákvað bæjarstjórn síðan loks að láta óháða aðila gera úttekt á fjármálum Reykjanesbæjar. Nýr meirihluti í bæjarstjórn Reykjanesbæjar fylgdi ákvörðuninni eftir, sá til þess að vandað væri til verksins og niðurstaðan væri birt bæjarbúum sem nú er í fyrsta sinn ljós alvarleg staða bæjarins.
Við íbúar Reykjanesbæjar eigum mikið verk fyrir höndum að vinna okkur út úr erfiðleikum þeim sem óstjórn, óraunhæfar áætlanir og stöðug eignasala sjálfstæðismanna á undanförnum áratug hefur komið bænum okkar í. Staða bæjarins er grafalvarleg en mikilvægt er að vandinn er nú öllum ljós og viðurkenndur.
Bæjarstjórn hefur því ákveðið að fara í sérstaka aðgerðaráætlun – Sóknina – til að snúa við rekstri bæjarins og auka framlegð. Sóknin felur m.a. í sér gagngera endurskoðun á skipulagi og skipuriti Reykjanesbæjar, greiningu á launagreiðslum utan kjarasamninga, hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins og aukningu á tekjum bæjarins.
Samfylkingin í Reykjanesbæ treystir meirihluta bæjarstjórnar til þess að verja grunnþjónustuna af öllu afli í komandi hagræðingu og fagnar því að nú sé bænum okkar stýrt á ábyrgan hátt og eftir raunhæfari og skýrari sýn en tíðkast hefur undanfarinn áratug. Framtíðarsýn sem byggir á skynsemi í fjármálum, fjárfestir í ungu fólki og er íbúum til heilla.
Verkefnið framundan er ærið en saman getum við bæjarbúar snúið bænum okkar til betri vegar.“
Stjórn Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ