Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sagnakvöld í Flösinni
Miðvikudagur 16. janúar 2008 kl. 09:46

Sagnakvöld í Flösinni

Fimmtudaginn 17. janúar kl. 20:00 – 22:00 munu kennararnir Inga Rósa Þórðardóttir, Kristjana Kjartansdóttir og  Sigrún Franklín,  bjóða íbúum og öðru áhugasömu fólki upp á sagnakvöld  í boði Sveitarfélagsins Garðs.

Saga Hraðfrystihúss Gerðabátanna er mjög áhugaverð en með tilkomu fyrirtækisins efldist byggðin. Inga Rósa, sem er afkomandi útvegsmanna í Garði, kynnti sér söguna og vill miðla henni áfram til íbúa og annarra gesta.

Kristjana er fædd og uppalin í Garði . Hún kynnti sér sögu menningar og menntunar á kreppuárunum. Íbúar í Garði voru ótrúlega duglegir á þeim árum í menningar- og menntamálum og verður gaman að heyra hvað þeir gerðu í þeim efnum.

Sigrún heldur sig við minjar. Á síðasta sagnakvöldi fyrir ári síðan flutti hún efni um letursteina en nú eru það yngri minjar, vindmyllur og brunnar sem enn má sjá leifar af en eru óðum að gleymast. Fróðlegt verður að rifja upp hvernig hvorutveggja þjónaði mannfólki í Garði á fyrri hluta tuttugustu aldar.

Á milli atriða verður fjöldasöngur. Veitingahúsið Flösin verður opin.
Tilvalið að taka með sér vinkonur og vini og skella sér á sagnakvöld, njóta menningararfleiðar og góðra veitinga í leiðinni.

Ritið Sagnaslóðir á Reykjanesi I sem byggir á efni fyrri sagnakvölda verður á tilboðsverði þetta kvöld.

sjf menningarmiðlun ehf
[email protected]
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024