Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sagan af Mexikóanum
Mánudagur 6. júní 2011 kl. 13:54

Sagan af Mexikóanum

Ég heyrði nýlega sögu frá litlu þorpi í Mexikó. Sagan fjallar um ferðamann frá litlum bæ á Íslandi sem loksins hafði komist í frí annasömum störfum sínum. Ferðamaðurinn undi sér sjaldan hvíldar og sá tækifærin á bak við hvern hól. Þar sem hann lá á stöndinni og velti fyrir sér tækifærunum sá hann brúnan og sællegan mexikóa ýta bát sinum á flot og róa til veiða. Sólin skein í heiði og þar sem lá og sötraði appelsínusafann sá hann að mexikóinn fór ekki sérlega langt út til veiðanna og staldraði stutt við. Eftir hálftíma var mexikóinn komin í land aftur og ferðamaðurinn sem var forvitinn maður að eðlisfari rölti til hans til að sjá árangur veiðiferðarinnar.


Mexikóinn hafði veitt vel, var með fimm flotta túnfiska um borð og ætlaði nú að fara heim. Ferðamaðurinn sem ættaður var frá stórum útgerðarbæ og lesið hafði fjallháa stafla rita lærisveins Miltons Friedmans um óheft frelsi einstaklingsins kom strax auga á tækifærin, og án þess að hika spurði hann mexikóann á vandaðri spönsku hversvegna hann færi strax í land þegar veiðin væri svo góð sem raun bar vitni. Sá mexikanski svaraði hissa „Ég þarf ekki meira“. Ferðamaðurinn sá sig tilneyddan til útskýra smávegis um hagfræði fyrir einföldum fiskimanninnum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


„ Sko þú hugsar þetta vitlaust“ Ef þú værir lengur úti að veiða og veiddir fleiri fiska gætir þú selt þá og eignast stærri bát sem svo fiskuðu ennþá meira. Þá gætir þú keypt þér enn fleiri báta og farið að selja á stærri mörkuðum úti um allan heim og haft fleiri þúsundir manna í vinnu. Þú gætir flust hvert sem þú vildir og haft það gott.“


Mexikóinn sem ekki vildi vera dónalegur, spurði ferðamanninn hvað þetta myndi taka mörg ár. „ Svona tíu“ sagði ferðamaðurinn sem var orðinn ákafur og bætti við „ Svo getur þú gert eins og ég og farið í frí á sólarstönd og slappað vel af í sólinni einu sinni á ári. Mexikóinn klóraði sér sutta stund í kollinum og og komst að þeirri niðurstöðu að hann skildi ekki alveg hagfræði útlendingsins og skildi ekki ávinninginn af þeim breytingum sem lagðar voru til. „En það er einmitt það sem ég geri núna allt árið“ sagði hann.


Sagan af fjármálum bæjarins

En höldum á norðurslóðir og alla leið heim í Reykjanesbæ þar sem "hagfræði útlendinganna" var fylgt út í ystu æsar. Með eftirtektaverðum en um leið skelfilegum afleiðungum. Afleiðingum sem birtast okkur t.d. daglega í líki eignalítils en ofurskuldsetts sveitarfélags sem seldi fjöregg sitt, orkunýtinguna, í tröllahendur sem nú kasta því á milli sín og mildin ein ræður hvort brotni.


Nýgerðir samningar um skuldir hafnar Reyknasbæjar bera svip nauðasamninga um leið og þeir eru liður í uppgjöri á tíu ára valdatímabili þess meirihluta er hér hefur starfað. Það er komið að skuldadögum. Og skuldum hafnarinnnar sem nú eru orðnar að skuldum bæjarsjóðs var bjargað fyrir horn, eins, og haft er eftir bæjarstjóranum í Fréttablaðinu nú í morgun. En dýrt var það!. Ljóst er að raunvextir skulda hafnarinnar sé tekið tillit til endurfjárrmögnunar núverandi lána mun á næstu árum verða nálægt hálfum milljarði króna á ári. Það þarf því ekki mörg ár þar til greiðslur vaxta af lánum hafnarinnar samsvara núverandi skuld.


Við höfum séð hvernig nánast hver einasta eign sem bæjarfélag með minnsta vott af sjálfsvirðingu þarf á að halda, hefur verið seld. Skólar, skolpdælustöðvar, og jafnvel skemmtigarðar barnanna eru nú eign félags sem leigir okkur aðgang að notkun þeirra. Fasteign. Milljörðum hefur verið sóað í tilraun til breytts rekstarforms sveitarfélagsins í anda nýfrjálshyggjunnar. Tíu árum síðar liggur niðurstaðan fyrir og lausnin í anda þess. Bærinn sem allan tímann hefur séð um allt viðhald eignanna innanhúss , tekur nú einnig á sig viðhaldið utanhúss og leigan lækkar að því að sagt er um helming.


Ljóst er af fréttum síðustu daga að brunaútsalan á því sem eftir er af eignum bæjarins er hafin. Ein eign er auðseljanlegri en aðrar, eignarhlutur bæjarins í HS Orku. Það er hún sökum þess að þar er eign sem sem um aldur og ævi á eftir að skapa verðmæti og arð í auknu mæli til eiganda sinna. Það var vitað þegar meirihlutinn í einkavinavæðingaræði sínu stóð fyrir sölu á verðmætustu eign bæjarins í andstöðu við meirihluta bæjarbúa. Sú sala á eftir að verða ævarandi minnisvarði um skammsýni þeirra sem tóku hagsmuni fjármagnsins fram yfir hagsmuni þess samfélags þem þeir höfðu verið kjörnir til að þjóna.


Við stöndum nú á tímamótum. Það er mikilvægt þrátt fyrir að stund sannleikans sé runninn upp að við missum ekki móðinn. Þrátt fyrir skerðingar á þjónustu og þunga skuldabyrði bæjarins á næstu árum verðum við að trúa á að úr rætist. Við verðum að byrja nánast frá grunni að skapa hér samfélag þar sem hagsmunir íbúanna verða hafðir í fyrirrúmi. Að hver sú ákvörðun sem tekinn er verði til þess að á einhverjum tímapunkti getum svipað og mexikóinn í sögunni á undan áttað okkur á hvað það sem skiptir máli fyrir velferð okkar og lífsánægju. Það hefur nú sýnt sig að þau gildi felast ekki í tómum Hljómahöllum, eða steinalagðri Hafnargötu og skreyttum hringtorgum. Þau gildi felast miklu fremur í velferð og virðingu. Velferð barna okkar, aldraðra og þeirra sem hér vilja búa og virðingu fyrir þeim grunngildum sem hvert samfélag á að hafa að leiðarljósi. Þessi verðmæti þarf nú að endurreisa áður en það verður orðið um seinan.


Með sumarkveðju
Hannes Friðriksson