Sá yðar er syndlaus er, kastið fyrsta steininum
Ég undirritaður slökkviliðs og sjúkraflutningamaður hjá Brunavörnum Suðurnesja, vill byrja á að þakka fyrir þetta tækifæri til að tjá mig um þann fréttaflutning sem hafður var frammi í fréttum Stöðvar 2 og á netsíðu vísis.is síðastliðinn þriðjudag, 12. maí.
Þar eru umsagnir mínar á Facebook síðu minni teknar úr samhengi og látið líta svo út að hér sé á ferðinni rasismi og niðurlæging af minni hálfu á aðstæðum þessa fólks sem er að berjast fyrir rétti sínum við annars ömurlegar aðstæður og sjá enga lausn aðra en að svelta sig til að fá sínu framgengt, hvort að það sé hentug aðferð verður hver að eiga við sig og ekki mitt að dæma.
Á minni síðu fara fram skoðanaskipti á milli „vina“ og í umræddri færslu var fólk að henda á milli sín kaldhæðni og svörtum húmor eins og stundum vill verða í góðra vina hóp. Vissulega hljómuðu þessar umsagnir eins og þær voru matreiddar í fréttum Stöðvar 2 og á vísi.is skelfilega og væri það að bera í bakkafullan lækinn að reyna að verja sumt sem þarna birtist. En á hinn bóginn get ég tæplega verið dreginn til ábyrgðar fyrir ummæli vina minna hvort sem mér líkar eður ei. En eitt er víst að rasismi eða níð á minnihlutahópa er ekki eitthvað sem ég er þekktur fyrir né hef ég tamið mér þannig gjörðir. Margir af mínum betri vinum eru af erlendu bergi brotnir og öllu litrófi heimsins. Og þetta vita þeir sem mig þekkja.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá er málið svona. Vísir og Stöð tvö réðust inn í mitt einkalíf með birtingu á þessari frétt og það sem meira er að Stöð 2 sá ekki sóma sinn í að birta stafkrók af þeirri greinagerð sem Helga Arnardóttir fréttamaður Stöðvar 2 þrýsti mikið á mig að skila í tíma, sem ég og gerði fyrir hana til að lesa yfir og birta að hluta eða alla þar sem hefði komið í ljós að matreiðsla fréttarinnar var ekki á rökum reist, og fyrir vikið ekki eins spennandi frétt eins og raun bar vitni.
Að lokum vill ég biðja alla þá sem var brugðið eða særðust vegna ummæla minna innilegrar afsökunar en seint get ég borið ábyrgð á ummælum annarra. Sérstaklega vill ég biðja vini mína og kollega hjá Brunavörnum Suðurnesja sem hafa sætt ásökunum um þátttöku sína í umræddu máli fyrirgefningar á þeim leiðindum sem þeir kunna að hafa orðið fyrir. Það var engum ætlaður harmi eða niðurlæging og fólk getur treyst því að sú þjónusta sem ég og kollegar mínir hjá B.S. erum að veita er af heilindum og manngæsku einni, því er og verður alltaf hægt að treysta.
Sturla Ólafsson
Slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður