Sá sem ekki kýs hefur ekki rödd
Ég hef verið spurð að þvi hvers vegna ég hafi ákveðið að gefa kost á mér í komandi bæjarstjórnarkosningum hér í Reykjanesbæ. Svarið er einfalt, ég hef brennandi áhuga á því að láta gott af mér leiða og hafa áhrif. Áhrif á framtíð mína, minna nánustu og míns samferðafólks. Reykjanesbær er góður bær, hér ólst ég upp og hér el ég upp mín börn.
Reykjanesbæ stendur frammi fyrir miklum tækifærum en það er hins vegar margt sem má bæta og margt hægt að gera svo bæinn okkar verði enn betri.
Eitt af helstu baráttumálum Miðflokksins í Reykjanesbæ er íbúalýðræði. Við viljum virkja íbúa til að hafa áhrif á þær ákvarðanir sem hafa hvað mest að segja um framtíð okkar. Ákvarðanir sem teknar eru bak við luktar dyr, sem snerta hag okkar allra, eru aldrei vænleg leið til framfara. Ég heyri hjá hópi fólks að það hafi ekki áhuga á því að kjósa. Það skipti engu máli þó það kjósi, staðan sé alltaf sú sama, það breytist aldrei neitt. Það er ekki svo. Það er mjög mikilvægt að nýta kosningaréttinn sinn og kjósa. Sá sem ekki kýs hefur ekki rödd. Það er hluti af frelsi okkar og mannréttindum að nýta þennan rétt. Við hörmum þær stóru ákvarðanir sem teknar hafa verið og hafa enn djúpstæð áhrif á bæjarbúa. Salan á Hitaveitu Suðurnesja var ein af þessum stóru ákvörðunum. Kísilverið í Helguvík, United Silicon var ein af þessum stóru ákvörðunum. Við viljum að allar ákvarðanir sem hafa slík framtíðaráhrif séu ekki teknar nema í samráði við bæjarbúa.
Við í Miðflokknum viljum hafa fólkið með okkur í liði og taka ákvarðanir sem eru í hag samfélagsins alls. Við viljum nýta tækifærin sem Reykjanesbæ stendur frammi fyrir. Við viljum að Reykjanesbær sé vænlegur kostur. Að hér sé gott að búa, stofna fjölskyldu og skapa farsæla framtíð.
Miðflokkurinn er nýtt framboð í Reykjaesbæ. Skipað nýju fólki með nýjar hugmyndir. Við erum jafnframt opin fyrir öllum góðum hugmyndum hvaðan sem þær koma. Við gefum kost á okkur af kostgæfni- alúð og heilindum. Við erum mætt í þína þágu og viljum að rödd þín fái sinn sjálfsagða hljómgrunn.
X-M
Linda María Guðmundsdóttir