Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sá hlær best sem síðast hlær
Þriðjudagur 14. september 2004 kl. 15:23

Sá hlær best sem síðast hlær

Í gær þegar sólin skein eftir langan rigningarkafla, fylltist ég bjartsýni og ákvað að hringja í fasteignarsölu á höfuðborgarsvæðinu.  Eftirfarandi er dálítið litað og breytt en samt í samræmi við helstu staðreyndir samtalsins:

,,Fasteignasalan Gullstangir, góðan dag."
,,Já góðan dag. Konráð heiti ég og mig langaði til að byrja á því að spyrja frekar í gamni en alvöru:  Áttu ekki einhverja fallega tveggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu á verðbilinu 20 - 25 milljónir?  Hún má vera staðsett í blokk."
Fasteignasalinn hlær og segir að svo hátt sé verðlagið ekki enn á eignum í Reykjavík.
,,Það er merkilegt," bæti ég við ,,að í lok árs 1997 var verið að selja fermetrann á mörgum íbúðum á 70.000,- og voru laun fólks ekkert fjarri því sem þau eru í dag.  Ég sé að þarna ertu með eign á söluskránni sem hefur fermetraverðið ofar 200.000,-."
,,Já, hefurðu áhuga á henni?"
Stundum dettur mér í hug að gullæðarnar gömlu sem leitað var að í Öskjuhlíð hafi fundist og liggi nú um alla Reykjavík.  Já, annars hvað segurðu mér um þessa eign?"
Eignin fær sína umfjöllun, ástand hennar, nýja eldhúsinnréttingin og fleira.
,,Ég fór á netið áðan, skal ég segja þér," bæti ég við þegar  tækifæri gefst , ,,og sá að eign sem auglýst var í blaðinu í morgun hafði hækkað um 300.000,- á sex klukkutímum.  Hvernig fer fólk að því að spara fyrir útborgun í íbúð ef það leggur fyrir 300.000,- á ári en verðið á eignunum hækkar eins og raun ber vitni?"
,,Þetta er góð spurning. Næstu spurningu."
Hvar á verðmætaaukningin sér stað, hjá fasteignasölunum, þjóðfélaginu eða hjá fólkinu? Ég las fyrir nokkru að það gæti hækkað íbúðarverð um 10% ef sæist til Esjunnar út um eldhúsgluggann."
Smá þögn.  Fasteignasalinn er að velta fyrir sér málunum, hverju hann eigi að svara í símann. 
,,Þetta var líka góð spurning."
,,Veistu, að ég er með töluverðar áhyggjur af því að við séum að eyðileggja tækifæri ungs fólks, fyrir stundarhagsmuni sem í raun færa engum gróða, dýrari fermetrinn ef þarf að stækka við sig, en sviptir ungu fólki tækifæri, börnunum okkar, að koma sér þaki yfir höfuðið."
Eftir þennan lestur hélt ég að fasteignasalinn myndi einfaldlega kveðja mig en svo varð ekki.  Hann hafði gaman af því að ræða málin frá ýmsum sjónarhornum.

,,Stillum upp eftirfarandi dæmi og segjum að ég vilji kaupa þessa 30 fermetra íbúð á 8 milljónir, er ungur að árum, reglusamur verkamaður með 150.000,- brúttó í laun, einhleypur, á engin börn, hef ekkert að hugsa um nema sjálfan mig.  Væri ekki sanngjarnt að ætla mér 30 fermetra við fyrstu kaup?"
Hann er því sammála og hér er komið að því að reikna hvað 150.000,- krónur gera í vasann þegar búið er að taka af skatta og gjöld og minnsta mögulegan kostnað við að afla teknanna, ekkert tóbak, ekkert vín... Niðurstaðan 100.000,- krónur.
Gott og vel. 
Þá er komið að því finna út hver sé sú upphæð mögulega minnst til þess að komast inn í ofangreinda eign.  Ekki er hægt að gefa sparnaði tilskilinn tíma vegna sífelldra hækkana á húsnæði.   Jú, með reddingum og viðbótarlánum, er möguleiki með eina milljón hreina í peningum að komast í samningsaðstöðu.
Þetta var frábært og ég var þegar farinn að gleðjast yfir því að hafa hringt. 
Næsta skref er að reikna út hversu vel þessi laun mín duga til að halda eigninni, hversu háar mánaðarlegar afborganir séu af þessum 7 milljónum í skuld, hversu mikið þurfi að greiða í fasteignagjöld, rafmagn, hita og viðhald, hússjóð og sitt hvað fleira.
,,Stopp, stopp," segir fasteignasalinn allt í einu í miðjum útreikningunum.
,,Þetta er algjörlega vonlaust fyrir þig."
Ég þakkaði honum fyrir upplýsingarnar og fyrir að gefa mér tíma til að átta mig á stöðunni og lagði á.
Kaffisopinn beið mín á könnunni og skyndileg hugljómun kom yfir mig þegar ég helti í bollann:
,,Það er aldrei að vita nema auglýst yrði smá kompa, jafnvel undir stiga sem ég réði vel við.  Þá gæti maður sett upp netta hillu fyrir ferðatöskuna og  horft dreymnum augum á  ljósið merla í rauðvínsglasi, glaðst með vinum og kunningjum yfir frábærum árangri að teljast nú með eignamyndun á höfuðborgarsvæðinu í steinsteypu og allt hvað eina.  Og vel á minnst, ekki alslæmt að lengja síðan úr sér á dýnu og njóta þess að vera ..... bíddu nú við, íbúðareigandi, nei, hérna.... hvað heitir það nú?"
Það lá við að ég færi að hlæja yfir þessum framtíðaráætlunum og yfir þessu gullæði sem gripið hefði um sig á meðal borgarbúa.
,,Læri, læri og tækifæri," eru orð sem má finna í vísu og komu upp í hugann.
Jú, jú, það var til nóg af tækifærum og ef hringavitleysan héldi áfram biðu alltaf fasteignasölur, rétt handan við hornið, rétt handan við hafið, með nýleg 150 m2 einbýlishús á verðbilinu 8 til 10 milljónir íslenskra króna.
,,Sá hlær best sem síðast hlær," varð mér að orði þegar ég saup á ylmandi, heitu, kaffinu.

Konráð K. Björgólfsson
Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024