Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

  • Rússnesk rúletta um almannahagsmuni
  • Rússnesk rúletta um almannahagsmuni
Mánudagur 14. apríl 2014 kl. 12:06

Rússnesk rúletta um almannahagsmuni

– endurtekur sagan sig?

Það er mikil ábyrgð sem felst í því að stjórna bæjarfélagi og mikilvægt að öll mál séu skoðuð ofan í kjölinn áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar. Bæði þarf að huga að fjárhagstöðu bæjarfélagsins hverju sinni og svo hvernig framtíðarhagmunir þess og bæjarbúa verða best tryggðir til framtíðar. Nýleg sala á fimmtán prósenta hlut bæjarins í HS veitum og umsögn Orkustofnunar um hugsanleg áhrif þeirrar sölu vekur upp spurningar. 
 
Fjárhagsleg staða Reykjanesbæjar er ekki góð. Það sýna þeir ársreikningar og tíu ára fjárhagsáætlun er nýlega hafa verið lagðir fram. Til að standa skil á þeim gríðarlegu skuldum er safnað hefur verið þurfti bærinn fjármagn . Þess vegna var 15% hlutur bæjarins í HS Veitum seldur.  Eftir sem áður  heldur bærinn þó á meirihluta, en án áhrifa nema með samþykki hins nýja fjárfestis. Orkustofnun sem umsagnaraðili Samkeppnistofnunar varar við það þetta sé gert. Segir að að slík sala samræmist ekki  ákvæðum raforkulaga. Laga sem sett eru til þess að tryggja hagsmuni almennings. 
 
Það hefur sýnt sig í áranna rás að hagsmunir fjárfesta og almennings fara ekki alltaf vel saman. Skemmst er að minnast hruns hins íslenska fjármálakerfis. Þeir samningar sem nú hafa verið gerðir þar sem gert er hluthafasamkomulag þar sem nýir eigendur fá neitunarvald í veigamiklum málum, geta haft áhrif á hag bæjarbúa í framtíðinni. Samningurinn virkar nefnilega í báðar áttir . Hinn nýi eigandi getur ef hann telur það ekki þjóna hagsmunum sínum um hámarks arð sett hinum opinberu aðilum stólinn fyrir dyrnar ef honum svo þykir og komið í veg fyrir hugsanlegar umbætur almenningi í hag. 
 
Enn á ný, sökum slælegrar fjármálastefnu meirihlutanns og afleitrar skuldastöðu hefur meirihlutinn æ ofan í æ leikið rússneska rúlettu með framtíðarhagsmuni almennings til að standa skil á skuldum sínum. Skuldum sem skilja sveitarfélagið að stórum hluta eftir eignalaust, miðað við það sem áður var. Háskaspil fyrri ára með ítrustu hagsmuni bæjarins enduðu með ósköpum þegar skot reið af í gróðrabrallinu miðju.
 
Það verður ekki aftur tekið, greiðslurnar hafa farið fram,en eftir stendur hvort hvort það hafi verið skynsamlegt. Það mun tíminn einn leiða í ljós, svipað og gerst hefur í þeim málum þar sem meirihlutinn hefur farið sínu fram, eins og gerðist í málefnum Fasteignar ehf, sölunni á HS, og algjörlega ótímabærra framkvæmda í Helguvík. Við skulum vona að sama sagan endurtaki sig ekki. 
 
Með bestu kveðju,
Hannes Friðriksson 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024