Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Round Table – Hvað er það?
Fimmtudagur 11. janúar 2007 kl. 12:19

Round Table – Hvað er það?

Round Table er félagsskapur ungra manna úr mismunandi starfsgreinum sem skiptast á skoðunum um hina ýmsu þætti samfélagsins, fara í fyrirtækjaheimsóknir og kynnast rekstri þeirra ásamt því að gera margt skemmtilegt og mannbætandi saman. Þetta er Round Table í hnotskurn. Það er að sjálfsögðu margt annað skemmtilegt sem kemur inn í starf félagsstarfsins eins og t.d. að hitta aðra Round Table félaga um allt land og allan heim ef svo ber undir og mynda þannig vinatengsl við skemmtilegt fólk. Einkunnarorð Round Table eru: Tileinka – Aðhæfa – Bæta. Hugmyndin að einkunnarorðum Round Table er tekin úr ræðu Prince of Wales á iðnaðarsyningu sem haldin var í Birmingham 1927, sem er stofnár hreyfingarinnar. Hann sagði meðal annars:

„The young business and professional men of the country must get together ROUND the TABLE, ADOPT methods that proved sound in the past, ADAPT them to changing needs of the time and, whenever possible, IMPROVE them“.

Stofnandi hreyfingarinnar fékk því bæði nafn hennar og einkunnarorð úr þessari gullnu setningu:

„Ungir menn í viðskipta- og atvinnulífi þessa lands, verða að koma saman HRINGinn umhverfis BORÐIÐ, TILEINKA sér aðferðir, sem hafa áður reynst farsælar, AÐHÆFA þær breytilegum þörfum nútímans og BÆTA þær hvenær sem það er mögulegt“.

Hvað er gert í RT-10?

FYRIRTÆKJAHEIMSÓKNIR

Fyrirtækjaheimsóknir eru stór þáttur í starfi RT-10 í Reykjanesbæ. Þar förum við í heimsóknir í hin ýmsu fyrirtæki, fáum kynningu á eðli starfseminnar og hvernig fyrirtækin eru rekin o.s.frv. Þetta eru fróðlegir fundir og gefa góða innsýn í þá fjölbreyttu starfsemi sem er stunduð hér í og í kringum Reykjanesbæ. Einnig förum við í heimsóknir í fyrirtæki sem eru staðsett utan Reykjanesbæjar ásamt heimsókn í eitt sendiráð á ári sem eru mjög skemmtilegir og fræðandi fundir um land og þjóð viðkomandi sendiráðs ásamt hlutverki sendiráða um allan heim.

ALMENNIR FUNDIR
Almennir klúbbfundir eru haldnir annan hvern þriðjudag yfir vetrarmánuðina. þeir eru samkvæmt fyrirfram ákveðinni dagskrá, sem er ákveðin í upphafi starfsárs. Fundarformið sjálft og dagskrá hvers fundar mótar hver klúbbur að mestu sjálfur, en venja hefur skapast um eftirfarandi:

ÞRJÁR MÍNÚTUR
Svokallaðar „þrjár mínútur“ eru fastur liður á hverjum almennum fundi. Tilgangur þeirra er að þjálfa félaga í að tjá sig. Þrjár mínútur eru t.d. þriggja mínútna erindi þar sem frummælandi úr hópi félaga heldur framsögu og kynnir mál sem honum er hugleikið. Ætlast er til að hver félagi tali (með eða móti eftir eigin sannfæringu) sem næst þremur mínútum svo tilgangi þessarar þjálfunar sé náð.

STARFSGREINAERINDI
Starfsgreinarerindi er þar sem einn félagi kynnir starf sitt. Erindið á að veita öðrum klúbbfélögum innsýn í starf hans og starfsaðstöðu. Oft er erindið haldið á vinnustað hlutaðeigandi eða að fyrirtækið er heimsótt. Sá sem erindið heldur kynnir sjálfan sig þ.e. að fara í stuttu máli yfir menntun sína, gera grein fyrir í hverju starf hans er fólgið og hvernig fyrirtækið starfar.

GESTAFUNDIR
Fengnir eru gestir til að halda fyrirlestur eða ræða um ákveðin málefni sem félagar hafa áhuga á að kynnast, hvort sem um er að ræða dægurmál, fræðslu, listviðburði eða annað. Almennt er gert ráð fyrir að gesturinn gefi stutt yfirlit yfir málefnið, en svari síðan fyrirspurnum.

PONTUFUNDIR
Pontufundir eru fundarform sem gefur tilbreytingu. þá er nokkrum félögum gert skylt að tala með eða móti einhverju ákveðnu málefni í einhvern lágmarkstíma t.d. 5. mínútur.  Reiknað er með að undirbúningur hvers erindis sé nokkuð góður, því eftir hvert erindi er öðrum klúbbfélögum gefinn kostur að á andmæla frummælanda.

KYNNINGARHRINGURINN
Á hverjum þeim fundi þar sem viðstaddur er gestur skal viðhafa kynningarhring.  Kynningarhringur er þegar hver félagi kynnir sig fyrir viðstöddum félögum og gestum, nefnir hann þá nafn sitt, aldur, starf, fjölskylduform (kvæntur, ókvæntur, í sambúð og fjölda barna). Fundarstjóri byrjar venjulega kynninguna og er hún látin ganga hring umhverfis borðið þannig að fundarstjóri lokar hringnum með því að kynna gestinn. Góður siður er að hafa kynningarhring á hverjum fundi, meðan nýr félagi er að kynnast eldri félögum.

SKEMMTANIR
Skemmtanahald er nokkuð öflugt. Bæði er um að ræða sameiginlegar skemmtanir klúbbanna og aðskildar á vegum einstakra klúbba. Haustfagnaður er haldinn í tengslum við fulltrúaráðsfund haustsins. Árshátíð er haldin í tengslum við aðalfund, að vori. RT-10 hefur í byrjun hvers starfsárs farið í óvissuferðir sem hafa alltaf vakið mikla lukku.

FJÖLSKYLDUSTARF
Þó að hreyfingin sé félagsskapur karla, þá hefur ætíð verið lögð rík áhersla á þýðingu fjölskyldunnar.  Farnar eru ferðir eða annað, jafnt að sumri sem vetri, þar sem fjölskyldan er þungamiðjan.

Round Table 10 er í Reykjanesbæ.
Round Table 10 hefur verið starfandi í Reykjanesbæ síðan 1994 og er samansettur af hressum ungum mönnum sem hafa gaman að því að hittast og spjalla saman. Öllum er heimilt að sækja um aðild að Round Table 10 og viljum við bjóða mönnum að skoða heimasíðu Round Table á www.roundtable.is og síðu RT-10 undir henni sem er www.roundtable.is/rt10. Þar er hægt að skoða þá dagskrá sem RT-10 hefur á yfirstandandi starfsári ásamt félagatali félagsins o.fl. upplýsingar. Setjið ykkur í samband við einhvern félaga okkar og fáðu upplýsingar um hvernig hægt er að sækja fundi okkar annan hvern þriðjudag, starfsárið hefst með fundum í lok ágúst og líkur um miðjan apríl ár hvert. Við tökum okkur gott sumarfrí á sumrin.

Ef þú lesandi góður vilt kynna þér starfið þá viljum við bjóða öllum þeim sem hafa áhuga á að koma á þrjá kynningarfundi áður en ákvörðun er tekin hvort þú vilt halda áfram í skemmtilegu klúbbstarfi sem er mjög gefandi. Þú getur fengið nánari upplýsingar hjá Bjarna (Gjaldkera RT-10) í síma 864-9101 (E-mail: [email protected]) eða Marteini (Formanni RT-10) í síma 663 6317 (E-mail: [email protected]).
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024