Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Rótarýsjóðurinn er kraftur Rótarýhreyfingarinnar
Sunnudagur 24. febrúar 2019 kl. 03:02

Rótarýsjóðurinn er kraftur Rótarýhreyfingarinnar

Rótarýhreyfingin, sem hófst með fjórum mönnum fyrir 114 árum í Chicago, hefur látið gott af sér leiða mörgum til gagns. Rótarýsjóðurinn eða „Rotary Foundation“ er tæki hreyfingarinnar til þess að koma góðum verkum í framkvæmd. Sjóðurinn var stofnaður 1917, fyrir meira en einni öld. Hann var ekki burðugur framan af en það breyttist smám saman og nú er Rótarýsjóðurinn orðinn afar öflugur. Hann styður og hefur stutt mörg verkefni víða um heim.
 
Stærsta verkefni hans er, og hefur verið síðan 1985, að útrýma lömunarveiki af jörðinni. Nú er svo komið að mjög fá tilfelli greinast árlega. En þegar verkið hófst dóu þúsundir barna víða um heim og enn fleiri urðu örkumla, lömuð fyrir lífstíð. Nú þegar hillir undir endalok þessa hræðilega sjúkdóms er svo komið að fæstir Íslendingar muna eftir lömunarveikinni og afleiðingum hennar. En baráttunni lýkur ekki fyrr en staðfest er að ekki hafi greinst fleiri tilfelli lömunarveiki eða „Polio“. Þau voru 32 árið 2018 en þrjú hafa greinst í ár. Verkefnið ber heitið „Polio Plus“.
 
En Rótarýsjóðurinn hefur haft mörg járn í eldinum og hefur enn. Margir Íslendingar hafa notið veglegra skólastyrkja til meistarnáms á háskólastigi. Enn fleiri hafa notið þess að fá tækifæri til þess að ferðast til landa víða um heim og kynna sér hvernig störf þeirra eru unnin í öðrum löndum. Þetta hafa verið ferðir fámennra hópa undir stjórn reynds Rótarýfélaga.
 
Rótarýsjóðurinn hefur unnið að verkefnum eins og að grafa brunna í Afríku og víðar og frelsað konur, einkum ungar stúlkur, frá þeirri kvöð að sækja vatn langar leiðir á hverjum degi. Sjóðurinn hefur styrkt atvinnurekstur kvenna í fátækari löndum og veitt smálán til þess að koma konum af stað í eigin rekstri.
 
Rótarýsjóðurinn hefur styrkt skólastarf víða í Afríku og Asíu. Það er afar mikilvægt að styðja menntun, einkum ungra stúlkna sem ella eiga ekki kost á henni. Markmið Rotary Foundation er að láta gott af sér leiða, „Doing Good In The World“. Upphafið var 26,5 dollara framlag Rótarýklúbbs Kansas City að undirlagi Arch T. Klumph 1917. Sjóðurinn hefur vaxið síðan og er nú viðurkenndur einn best rekni góðgerðasjóður í heimi. „The Association of Fundraising Professionals“ útnefndi sjóðinn sem framúrskarandi árið 2017. Sú viðurkenning er mikils virði.
 
Nánast hver króna eða dollari sem gefinn er til sjóðsins rennur beint til þeirra verkefna sem honum er ætlað að sinna. Stór hluti af þeim árangri stafar af því að Rótarýfélagar sjá um að féð nýtist og aðkoma þeirra er sjálfboðaliðastarf. Það er ekki greitt fyrir vinnu við að koma verkefnum í gagnið og gang. Þúsundir Rótarýfélaga víða um heim hafa bólusett börn gegn lömunarveiki. Fyrir hvern dollara sem Rótarý leggur til Polio Plus veitir sjóður Bill og Melindu Gates tvo til sjóðsins. Það sýnir mikið traust þeirra á „Rotary Foundation“.
 
Íslenskir Rótarýfélagar hafa veitt meira en einni milljón dollara til sjóðsins á undanförnum áratugum. Þess má geta að Rótarýklúbbur Keflavíkur hefur verið einn öflugasti klúbburinn þegar kemur að framlögum til sjóðsins frá Íslandi og sum árin sá allra öflugasti.
 
Markmið „The Rotary Foundation“, sem við nefnum gjarnan sjóðinn okkar, er að gera Rótarýfélögum kleift að efla skilning manna á meðal, góðvild og frið með því að stuðla að bættri heilsu, stuðningi við menntun og útrýmingu fátæktar.   
 
Ólafur Helgi Kjartansson,
félagi í Rótarýklúbbi Keflavíkur
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024