Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Rós í hnappagat þjóðar
Mánudagur 27. apríl 2009 kl. 13:13

Rós í hnappagat þjóðar

Sennilega hefur pólitísk umræða á Íslandi meðal almennings ekki verið meiri í a.m.k. 30 ár en einmitt  nú í vetur, eftir bankahrunið. Íslendingar tóku afstöðu í kjölfar þeirrar umræðu í gær. Úrslitin eru ótvíræð. Velferðarsamfélagið og gildi þess urðu hlutskörpust. Við viljum samfélag þar sem grundvallarsjónarmið um jöfnuð, réttlæti og samábyrgð fá notið sín. Við viljum byggja upp nýtt velferðarsamfélag eins og það gerist best að norrænni fyrirmynd. Við höfnum sérhagsmunum og hvers konar gróðabraski. Við viljum skilvirkt regluverk sem setur markaðskerfinu skýrar leikreglur í því alþjóðlega umhverfi sem við lifum og störfum í. Við viljum vera þátttakendur í samfélagi þjóðanna sem sjálfstæð fullvalda þjóð og einmitt þess vegna er umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu komin á dagskrá þeirrar ríkisstjórnar sem við tekur á því kjörtímabili sem nú er hafið.

Samfylkingin er ótvíræður sigurvegari kosninganna, ný kjölfesta í íslenskum stjórnmálum. Hún ásamt Borgarahreyfingunni og ,,nýrri” Framsókn hafa meirihluta fyrir aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Vinstri grænir sem eru einarðlega á móti ESB geta ekki sett Samfylkingunni stólinn fyrir dyrnar í þeim efnum, eins og ætla mátti af orðum þeirra í umræðunni fyrir kosningar.  Hin harða gagnrýni Vinstri grænna á ESB er líklega skýringin á fylgistapi þeirra frá skoðanakönnunum, sem gátu gefið vísbendingu um að þeir yrðu stærsti flokkurinn eftir kosningarnar. Svo fór ekki, skynsemi kjósenda sá fyrir því.

Sjálfstæðisflokkurinn bauð afhroð, stefnu hans var hafnað. Það er reyndar merkilegt að meðan andstaða Vinstri grænna við ESB byggir á heiðarlegri þjóðernishyggju þá er stefna Sjálfstæðisflokksins grundvölluð á sérhagsmunum útvegsmanna og kvótaeigenda, sem vilja geta ráðskaðst með auðlindina að eigin geðþótta. Fiskveiði- og auðlindastefna ESB, sem tekur mið af hagsmunum byggða og þeirra sem starfa við nýtingu auðlinda, ógnar nefninlega sérhagsmunum íslenskra útvegsmanna á kostnað okkar hinna. Það er alveg ljóst að þjóðin er búin að fá sig fullsadda af sérhagsmunagæslu Sjálfstæðisflokksins fyrir fáa útvalda og þeirri spillingu sem ríkt hefur kringum þá hagsmunagæslu og sérhyggju sem á endanum kom þjóðinni í þann vanda sem við stöndum frammi fyrir.

Sigur Borgarahreyfingarinnar og útstrikanir á þeim stjórnmálamönnum sem komu við sögu hrunsins eða eru flekkaðir af óhóflegum fjárstuðningi fyrirtækja er krafa fólksins um gegnsæi og aukið lýðræði, m.a. um persónukjör í kosningum í stað prófkjöra. Borgarahreyfingin vill að óháð stjórnlagaþing endurskoði stjórnarskrána og leggi þá endurskoðun undir í þjóðaratkvæðagreiðlu. Ekki verður séð hvernig ný ríkisstjórn kemst hjá því að verða við þeim kröfum.

Framsóknarflokkurinn virðist vera að jafna sig eftir ótrúlega siðspilltan feril forystumanna flokksins.  Spurningin er bara sú hvort hann láti sér fortíðina að kenningu verða og þroskist í átt til félagshyggju og trúverðugleika á ný, hvort ný og yngri forusta flokksins hefur unnið á því krabbameini sem þjakað hefur flokkinn. Það kemur í ljós.

Í mínum huga hefur skynsemin sigrað í þessum kosningum sem nú eru afstaðnar. Það er rós í hnappagat þjóðarinnar.

Skúli Thoroddsen
Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024