Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Rífum Myllubakkaskóla
Laugardagur 20. nóvember 2021 kl. 07:12

Rífum Myllubakkaskóla

Það má vera að það hljómi eins og veruleikafirring en jafnframt besta lausnin á því ófremdarástandi sem upp er komið með skólahúsnæði Myllubakkaskóla að rífa það. Skólinn stendur á risastórri lóð í miðri Keflavík. Skammt þar frá er að finna aðra risastóra lóð, gamla malarvöllinn og keppnisvöll Keflavíkur.

Nýlega voru kynnt áform KR-inga um stórfellda uppbyggingu í Frostaskjóli í Reykjavík, blokkir, knattspyrnuhús og nýjan keppnisvöll fyrir KR, allt til að halda þeim samkeppnisfærum á efsta stigi keppnisíþrótta á landsvísu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keflavík á knattspyrnulið í efstu deild karla og kvenna. Keflavík á körfuknattleikslið í efstu deild karla og kvenna. Þannig viljum við að það sé, það er gott fyrir bæjarfélagið, en við viljum líka að þessi lið séu að keppa um Íslandsmeistaratitla. Þau séu ekki bara í efstu deild, heldur að þau séu meðal þeirra bestu. 

Hvað Myllubakkaskóla varðar þá má laga núverandi skóla með tilheyrandi kostnaði eða:

Rífa Myllubakkaskóla og m.a.:

sameina hann Holtaskóla og byggja við Holtaskóla

byggja nýjan á gamla malarvellinum

flytja hann í FS – og byggja nýjan fjölbrautaskóla á Ásbrú

Á lóð Myllubakkaskóla mætti byggja einhver hundruð íbúða. Nærtækast væri að líta á blöndu af Hlíðarhverfi og blokkum sem byggðar hafa verið við Keflavíkurhöfn. Samhliða færi fram uppbygging á Keflavíkurreitnum. Þar mætti byggja önnur hundruð íbúða en jafnframt, nýjan skóla, nýjan keppnisvöll Keflavíkur, nýtt fjölnota íþróttahús – sem m.a. samanstæði af innanhússknattspyrnuvelli og þjóðarleikvangi í körfuknattleik sem sárlega vantar hér á landi. Uppbygging í rótgrónum hluta bæjarins. Hugsanlega mætti tala um nýjan miðbæ, sambærilegan þeim sem rís á Selfossi. Þá er eftir Fógetatúnið. Ennþá fleiri íbúðir. Þétting byggðar. Nýr miðbær þar sem tengjast íbúðir, skóla- og íþróttastarf. 

Ávinningurinn er sá að til framtíðar fæst skólahúsnæði sem hentar nútímaþörfum, íþróttaleikvangar sem uppfylla nútímakröfur, aðstaða sem stæði undir slagorðinu „Íþróttabær“ og ýtti undir að okkar íþróttafélög gætu keppt um Íslandsmeistaratitla til framtíðar. Svo ekki sé minnst á betri landnýtingu og bæjarmynd sem yrði öðrum góð fyrirmynd.

Ég hvet bæjarbúa til að hugsa þetta mál og skoða með opnum augum. Þessi stóru landsvæði í miðjum bænum má nýta mun betur og byggja þannig betri bæ til framtíðar. 

Margeir Vilhjálmsson.