Reykjanesbrautin er öryggisbraut
Í upphafi þessa árs bárust af því fréttir að samgönguráðherra væri bjarsýnn. Bjartsýnn á að nú hyllti undir að verkefni sem átti að ljúka innan áratuga myndi ljúka á næstu árum, gengi allt eftir. Helst var að skilja á ráðherranum að hann myndi beita áhrifum sínum í þá átt að nú yrði ekkert stopp á tvöföldun Reykjanesbrautarinnar þannig að verkefninu yrði lokið á næstu þrem til fjórum árum. Ég að minnsta kosti taldi rétt að slá í vöfflur að sönnum framsókanarsið til að fagna árangrinum.
En Adam var ekki lengi í Paradís, frekar en að ráðherrann ætlaði sér að fylgja eftir þeim orðum sínum sem leiddu til bjarsýniskasts míns, og vöfflubakstursins. Í viðtali á útvarpsstöðinni Bylgjunni þann 7.febrúar má helst skilja á ráðherranum að tvöföldun Reykjanesbrautar yrði hugsanlega lokið á næstu sjö árum, þó auðvitað væri peningum betur varið í allskonar annað út um allt land og þannig væru kannski fimmtán ár í lok framkvæmdarinnar, með öllum þeim fyrirvörum sem hægt væri að setja. Við það getum við íbúar á Suðurnesjum ekki búið.
Fyrir okkur íbúana hér, alveg eins hundruðir þúsunda ferðamanna þá er Reykjanesbrautin lífæð samgangnanna til höfuðborgarsvæðisins. Um hana fara þúsundir manna á hverjum einasta sólarhring. Hún hefur í áranna rás krafist sinna fórna í formi fjölda slysa, sem sum hver hafa krafist mannslífa og örkumla. Það er alvörumál að halda að sér höndum.
Við höfum í upphafi þessa árs verið rækilega minnt á að Reykjanesbrautin er öryggisbraut, komi til áfalla hér á skaganum. Lokist einföldu hlutar brautarinnar er allt stopp. Komi til alvarlegra atburða í náttúrunni, eða að alvarlegt flugslys verði á Keflavíkurflugvelli þá fækkar þeim möguleikum sem mega verða til bjargar. Við getum ekki og eigum ekki að sætta okkur við að öryggisþátturinn sé vanræktur sökum hugmyndafræðilegra vangaveltna stjórnmálamanna um fjármögnunarleiðir til að tryggja öryggi okkar.
Það er ljóst að fjármögnunarleiðir eru nægar til þess að hægt sé að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautarinnar allrar á tiltölulega skömmum tíma. Það er ekki eftir neinu að bíða. Umræðan um tvöföldun Reykjanesbrautarinnar á ekki að vera hluti af umræðu um vegskatta, sölu bankanna, eða alveg óskylda hluti. Reykjanesbrautin er öryggisbraut sem á að vera í lagi. Næstu skilaboð ráðherra eiga ekki að vera um hvort hann sé bjartsýnn, heldur að verkefninu hafi verið tryggt fjármagn og að ekkert komi í veg fyrir að tvöföldun brautarinnar verið lokið innan fjögurra ára. Það hlýtur að teljat sanngjörn krafa.
Með bestu kveðju,
Hannes Friðriksson.