Reykjanesbær tekinn sem dæmi um viðsnúning í rekstri
Á nýafstaðinni fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga var Reykjanesbær eitt þriggja sveitarfélaga sem tekið var sem dæmi um viðsnúning í rekstri. Á ráðstefnunni var Þórey I. Guðmundsdóttir fjármálastjóri Reykjanesbæjar fengin til að gera grein fyrir glímunni sem Reykjanesbær hefur háð og árangri hennar.
Fjórar ástæður erfiðleikanna
Þórey nefndi fjórar ástæður fyrir auknu álagi, kostnaði og skuldsetningu fyrir samfélagið.
Í fyrsta lagi varð tæplega 30% fjölgun íbúa árin 2005-2009, mun meiri en annars staðar á landinu. Þessi mikla fjölgun íbúa kallaði á byggingu nýs grunnskóla og nýrra leikskóla, uppbyggingu nýrra hverfa, auk styrkingar á öðrum innviðum bæjarfélagsins. En hún var einnig grunnur að auknum tekjum til framtíðar.
Í lok árs 2006 fór Varnarliðið og með því 1100 íslensk störf - lang flest úr Reykjanesbæ. Þórey benti á að alls misstu um 14% starfandi íbúa í Reykjanesbæ vinnuna á þeim tíma á aðeins 6 mánuðum. Ég hef fullyrt að hefði sambærilegt hlutfall starfa horfið úr Reykjavík á jafn skömmum tíma, hefði verið lýst yfir neyðaraástandi í landinu!
Það sem sló á óttann hér var að á sama ári hófst gríðarleg fjárfesting í uppbyggingu hafnar og atvinnusvæða í Helguvík, til sköpunar nýrra atvinnutækifæra, m.a. vegna samninga við Norðurál. Því var mætt með aukinni skuldsetningu. Menn væntu góðra atvinnumöguleika frá Helguvík.
Þá kom efnahagshrunið 2008, sem bæði jók enn á atvinnuleysið og umbreytti erlendum skuldum og skuldbindingum tengdum bænum í óskapnað. Við glímum enn við afleiðingar þessa.
Árangur aðgerða
Þá skýrði Þórey frá þeim aðgerðum sem gripið var til og hvernig tekist hefur að breyta rekstrarniðurstöðu bæjarsjóðs í kjölfar þessara áfalla. Reksturinn fór úr 3ja milljarða kr. tapi árið 2008 í 708 milljón króna afgang árið 2012. Hún skýrði frá hvernig framlegð hefur á sama tíma farið úr að vera neikvæð um 17,42% í að vera jákvæð um 10,21% . Á sama tíma hefur handbært fé og veltufé styrkst.
Þórey lýsti nánar þeim aðgerðum sem gripið var til í kjölfar þessara áfalla. Hún nefndi tímabundna breytingu á starfshlutföllum flestra annarra en kennara í leik- og grunnskólum, sem unnið var í samráði við starfsmenn. Þar tóku starfsmenn á sig 10-15% launaskerðingu í þrjú ár, 2009 til 2011 . Hægt var á öllum framkvæmdum um leið og leitað var nýrra lausna í viðhaldsverkefnum. Styrkir voru lækkaðir tímabundið. Þá var farið í útboð á stórum rekstrarþáttum t.d. ræstingum, vátryggingum, öryggiskerfi, símamálum o.fl. sem leiddi til aukinnar hagræðingar. Þá voru ný upplýsingakerfi tekin í notkun sem hafa aukið hraða í stjórnsýslu og aukið aðhald. Verklagsreglur bæjarráðs og upplýsingastreymi til bæjarráðs hefur verið styrkt.
Samstill átak – betra samfélag
Ég fullyrði að þessi árangur, sem þarna var lýst á skilmerkilegan hátt af fjármálastjóra, væri ekki til staðar án góðs samráðs og samstillts átaks allra starfsmanna, stjórnenda og félagasamtaka. Ég fullyrði að í bæjarráði og bæjarstjórn hefur einnig starfað hópur sem reynt hefur að mestu leyti að leiða hjá sér pólitíska flokkadrætti en lagt áherslu á góð vinnubrögð og betra upplýsingastreymi.
Það eykur á ánægju með viðsnúninginn, þegar skólarnir okkar á öllum skólastigum sýna af sér stóraukinn árangur. Við erum að komast upp að hlið þeirra bestu og leiðum í mörgum tilvikum. Íþróttastarf er með miklum blóma og óvíða er til jafn vönduð aðstaða undir slíkt og hér, þótt alltaf megi gera betur. Við eigum félagsþjónustu sem þekkt er á meðal fagfólks fyrir vönduð vinnubrögð þrátt fyrir mikið álag. Við eigum hér samfélag við sjóinn sem leggur áherslu á heilsustíga, öruggt og fallegt umhverfi og gott viðhald gatna og bygginga. Hér blómstrar fjölbreytt menning sem vel birtist á Ljósanótt á hverju ári. Við höfum efni á að halda áfram, væntum þess að mikil fjárfesting í Helguvík, á Reykjanesi og við flugvallarsvæðið skili sér í mörgum fyrirtækjum sem hér setjist að með fleiri vel launuð störf um leið og allir innviðir okkar eru tilbúnir. Raunhæf atvinnutækifæri okkar tengd jarðauðlindunum, sjávarauðlindunum og ferðaþjónustu verða kynnt frekar á næstu vikum. Við höldum áfram að bæta samfélagið, bæta aðstöðu leikskóla, byggja hjúkrunarheimili, tónlistarskóla og ráðstefnuaðstöðu, sem skapar aukin atvinnutækifæri tengd ferðaþjónustu. Þetta getum við gert án frekari skuldsetningar. Þvert á móti höldum við áfram að greiða niður lán. Við getum verið bjartsýn á framhaldið.
Með kveðju,
Árni Sigfússon, bæjarstjóri