Reykjanesbær: Ástæða til bjartsýni
Reykjanesbær fer ekki varhluta af gengishruni og fjármálakreppu fremur en fyrirtæki og heimili í landinu. Reiknað tap í ársreikningi Reykjanesbæjar 2008 nemur rúmum 8 milljörðum kr. 7,5 milljarðar eru vegna gengistaps og neikvæðra fjármagnsliða. Neikvæð staða byggir á fjórum þáttum:
1. Skráðu tapi vegna eignarhluta í Hitaveitu Suðurnesja
2. Framkvæmda í Helguvík
3. Fjármagnskostnaði bæjarsjóðs
4. Auknum útgjöldum til verklegra framkvæmda í lok árs og aukinni fjárhagsaðstoð og húsaleigubótum til heimila
1. Stærsti einstaki áhrifavaldur á neikvæða stöðu, um rúmlega 4 milljarða kr ., er Hitaveita Suðurnesja, en á bæinn er skráð 35% af 11,7 milljarða kr. tapi Hitaveitu Suðurnesja 2008. Reykjanesbær stóð vaktina þegar önnur sveitarfélög seldu hlut sinn í Hitaveitunni og lögðu hagnað á ávöxtunarreikninga.
2. Annar stærsti skráður liður í rekstrartapi tengist fjármagnsliðum hjá bæjarsjóði Reykjanesbæjar, á sama hátt og hjá Hitaveitunni. Fjármagnsliðir hjá bæjarsjóði Reykjanesbæjar eru 2,4 milljörðum kr. hærri en áætlað hafði verið í upphafi árs 2008. Reiknað tap bæjarsjóðs nemur 3 milljörðum og 45 milljónum kr.
3. Auk neikvæðra fjármagnsliða eru rekstrartekjur bæjarsjóðs 100 milljónum kr. undir áætlun og verulega var aukið við framkvæmdaverkefni, félagslega þætti og styrki í lok árs. s.s. vegna stórframkvæmda í vegagerð við Hringbraut og Suðurgötu. Þá voru húsaleigubætur umtalsvert hærri en ætlað var í lok árs.
4. Þriðji stærsti liður í neikvæðri afkomu tengist háum neikvæðum fjármagnsliðum hjá Reykjaneshöfn og rekstrarfélagi um félagslegar íbúðir í Reykjanesbæ. Fjármagnsgjöld nema tæpum 1 milljarði kr. og heildartap er tæpar 800 milljónir kr.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu í ársreikningi 2008 telja forsvarsmenn Reykjanesbæjar ástæðu til bjartsýni því stærsti hluti umrædds kostnaðar snýr að atvinnuuppbyggingu og forsendum hennar. Þar ber hæst uppbyggingu orkumannvirkja og fjölda atvinnuverkefna s.s. álver, kísilver, gagnaver, ferðaþjónustu, mennta- og fræðaþorp, heilsuþjónustu og atvinnusköpun í tónlist og hugverkum, segir í tilkynningu frá Reykjanesbæ.