Reykjanesbær – við boðum breytingar
Ég býð mig fram í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ sem haldið verður 26. febrúar. Ég brenn fyrir því að efla orðspor Reykjanesbæjar sem er fjórða stærsta sveitarfélag landsins, efla fjölbreytt atvinnulíf, efla innviði og efla mannlífið. Ég boða breytingar.
Breytingar í atvinnulífi. Vinnum saman að fjölbreyttara atvinnulífi, bíðum ekki með hendur í skauti eftir að haft er samband, það þarf einnig að sækja fram og fá fyrirtæki hingað og taka vel á móti þeim sem áhuga hafa á að koma til Reykjanesbæjar.
Breytingar í skólamálum þannig að fjölbreytileikinn fái að njóta sín með markvissum stuðningi. Komið hefur fram að allir í skólasamfélaginu sjái í menntun án aðgreiningar sem leið til að gefa öllum nemendum kost á gæðamenntun. Við þurfum að finna leiðir með okkar besta fólki í skólakerfinu að því að af þessu geti orðið.
Breytingar í leikskólamálum þannig að öll börn frá tólf mánaða aldri verði komin í í leikskóla ef foreldrar vilja fyrir lok næsta kjörtímabils, settur verði upp tímasettur aðgerðarlisti. Foreldrar eiga ekki að þurfa að kvíða því að komast ekki í vinnu að loknu fæðingarorlofi.
Breytingar í íþrótta-, tómstunda- og menningarstarfi. Sjálfboðastarf í frjálsum félagasamtökum eru ómetanleg í öllum samfélögum. Við í Reykjanesbæ höfum verið mjög lánsöm hversu duglegt fólk er í stjórnum, foreldrafélögum, aðstoð við sýningar ýmis konar svo eitthvað sé nefnt. Reykjanesbær þarf að koma inn sem öflugur stuðningsaðili á allan hátt, ekki einungis með fjármagni. Væri hægt að samþætta frístundarstarf meira með þessum félögum þannig að það kæmi fjárhagslega betur út fyrir alla og sé heildstæðara fyrir notendur? Er ekki ástæða til að færa meira íþrótta-, tómstunda- og menningarstarf út í hverfin?
Breytingar í skipulagsmálum. Við þurfum að horfa á sveitarfélagið í heild og fá bæjarbúa meira að borðinu. Aðalskipulag Reykjanesbæjar er metnaðarfullt plagg en ég sakna meira samráðs og samtals við bæjarbúa. Við þurfum að horfa á stærri þróunarreiti heldur en nú er gert þannig að heildarmyndin verði sem glæsilegust. Þjónusta tengd skipulagsmálum þarf að eflast.
Breytingar í þjónustu. Stofnanir og starfsfólk Reykjanesbæjar, ásamt bæjarfulltrúum eru til þjónustu reiðubúin fyrir bæjarbúa. Við eigum ávallt að gera betur og veita bestu mögulegu þjónustu.
Breytingar á nýtingu fjármagns. Það þarf að stýra vel verklegum framkvæmdum og leggja áherslu á að undirbúningurinn sé góður. Ráðstöfun á fjármagni sveitarfélagsins þarf að vera gert af virðingu fyrir því að verið sé að fara með fé annarra þ.e. bæjarbúa.
Breytingar í samskiptum við ríkisvaldið. Við eigum ekki að sætta okkur við mismunun á fjármagni til Reykjanesbæjar miðað við önnur sveitarfélög, þurfum að sækja fram og vera skýr í okkar kröfugerð.
Við boðum breytingar. Hér að ofan hefur einungis verið stiklað á stóru. Ef þú vilt breytingar þá er eina leiðin að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Mig langar til þess að leiða breytingar með ykkur og óska því eftir stuðningi þínum í 1. sæti.
Margrét Sanders,
rekstrarráðgjafi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.