Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Reykjanes vekur athygli á Vest Norden ferðakaupstefnunni
Þriðjudagur 20. september 2005 kl. 14:38

Reykjanes vekur athygli á Vest Norden ferðakaupstefnunni

Fjölbreyttir möguleikar fyrir ferðamenn á Reykjanesi vöktu athygli á Vest Norden ferðakaupstefnunni sem haldin var í Kaupmannahöfn dagana 13. og 14. september sl. Alls sóttu hátt í 500 gestir kaupstefnuna og meðal þeirra eru helstu aðilar sem skipuleggja ferðir einstaklinga og hópa til Íslands.

Í tilefni kaupstefnunnar var efnt til sérstaks kynningarverkefnis Ferðamálasamtaka Suðurnesja og fyrirtækja sem eiga í viðskiptum við ferðamenn. Töskum með kaffi frá Kaffitári, harðfiski frá Stjörnufiski í Grindavík, BLUE LAGOON húðvörum, kynningarboðskortum og bæklingum var meðal þess sem var að finna í glæsilegum töskum sem afhentar voru gestum sýningarinnar.

Hótel Keflavík og Bláa Lónið tóku þátt í sýningunni og dreifðu starfsmenn fyrirtækjanna töskunum ásamt kynningarefni meðal gesta.

Markmið verkefnisins var að sýna fram á fjölbreytt framboð vöru og þjónustu og hvetja ferðaskipuleggjendur til að nýta sér þá möguleika sem hér eru fyrir hendi.
Gestir fengu einnig afhent kynningarkort með afrifum frá
þátttökufyrirtækjum. Gegn framvísun afrifunnar geta handhafar kortsins upplifað vöru eða þjónustu viðkomandi fyrirtækis þeim að kostnaðarlausu í eitt skipti. Afrifurnar veita frían aðgang að Fræðasetrinu í Sandgerði, Byggðasafninu í Garði, Duus húsum í Reykjanesbæ, í Gjána og Saltfisksetrið í Grindavík, fría ferð með SBK, aðgang í Bláa Lónið – heilsulind, Salthúsið í Grindavík veitir frían forrétt með keyptum eftirrétt, veitingastaðurinn í Bláa Lóninu – heilsulind frían eftirrétt og kaffi með keyptum aðalrétt og Kaffitár frían kaffibolla á kaffihúsum Kaffitárs.

Mikill áhugi var meðal gesta sýningarinnar fyrir Reykjanesi og þeim fjölbreyttu möguleikum sem hér eru og er það hvatning fyrir fleiri fyrirtæki að taka þátt í Vest Norden 2006 sem haldin verður í Reykjavík.

Magnea Guðmundsdóttir
Kynningarstjóri Bláa Lónsins hf
Verkefnisstjóri Vest Norden verkefnis Ferðamálasamtaka Suðurnesja

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024