Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Réttlátt og jákvætt samfélag með J-listanum
Föstudagur 11. maí 2018 kl. 10:40

Réttlátt og jákvætt samfélag með J-listanum

Eftir nokkra daga verður fyrsta bæjarstjórn í nýju sameiginlegu sveitarfélagi okkar Sandgerðinga og Garðmanna kosin. Við vitum kannski ekki enn hvað bæjarfélagið mun heita, en við við vitum samt að við verðum íbúar í næst fjölmennasta samfélagi á Suðurnesjum og einu því öflugasta á landinu. Bæjarfélagið mun stíga fyrstu skrefin á mjög spennandi tímum vaxtar og tækifæra á Suðurnesjum en úrlausnarefnin verða að sama skapi mörg hver flókin og krefjandi. 
 
Eitt af því sem hefur gerst á nú á síðustu vikunum fyrir kosningar er að til hefur orðið nýtt pólitíkst afl í sveitarfélaginu, J-listi jákvæðs samfélags. Þar kemur saman fólk úr ýmsum pólitískum áttum sem á sér þá sameiginlegu sýn að samfélagið eigi að vera manneskjulegt, jákvætt og allir eigi að fá tækifæri til að eiga gott líf. Við á J-listanum viljum að sköpunargleði og kraftur einstaklinganna fái að njóta sín en að samfélagið sé líka til staðar fyrir þau okkar sem þurfa á stuðningi og aðstoð að halda. Við viljum að sveitarfélagið veiti íbúum sínum fyrsta flokks þjónustu og byggi upp nauðsynlega innviði. Stjórnsýslan þarf að vera gagnsæ og ábyrg og leggja þarf áherslu á íbúalýðræði og sjálfbærni. Hið nýja sveitarfélag þarf að takast af ábyrgð á við verkefni 21. aldarinnar og leggja sitt af mörkum til þess að skila Jörðinni í góðu standi til komandi kynslóða. 
 
Þessa daga sem eru fram að kosningum munu íbúar í Garði og Sandgerði kynnast J-listanum betur, bæði frambjóðendum sem og þeim málefnum sem við leggjum áherslu á. Sum okkar eru reynslumikil, eins og ég sjálfur, en aðrir eru að stíga sín fyrstu skref í bæjarmálum og koma með eldmóð og nýja sýn að borðinu. Þegar við komum öll saman verður til kraftmikið framboð sem leggur áherslu á opið, blómlegt, réttlátt og jákvætt samfélag.
 
Ég mæti með bros á vör í þá lýðræðisveislu sem er framundan. Ég hef líka þá trú að Garðmenn og Sandgerðingar setji traust sitt á J-lista Jákvæðs samfélags til að leiða nýja sveitarfélagið okkar í sínum fyrstu skrefum.
 
Ólafur Þór Ólafsson, 
forseti bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar og oddviti J-lista Jákvæðs samfélags í Garði og Sandgerði.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024