Réttar upplýsingar til kjósenda
– Einar Magnússon bæjarfulltrúi skrifar
Ég skrifa þessi orð til að leiðrétta rangfærslu um mig í grein Ragnars Arnar Péturssonar formanns kjörnefndar Sjálfstæðisflokksins í grein hans „Rétt skal vera rétt,“ sem birtist á vef Víkurfrétta laugardaginn 22. mars. Greinina skrifar hann til að „lýsa aðdraganda og niðurstöðum“ og koma „á framfæri réttum upplýsingum til kjósenda“ varðandi prófkjör og uppstillingu framboðslista Sjálfstæðisflokksins.
Í greininni segir Ragnar: „Einar Magnússon, sem náði 7. sæti í prófkjörinu var tilbúinn að víkja úr því sæti og þáði 21. sætið.“ Þetta er rangt og vegna þess að margir af mínum stuðningsmönnum hafa spurt mig að því hvers vegna listinn er eins og hann er finnst mér þeir eiga rétt á að vita hið rétta í málinu. Hið rétta er að mér bauðst aldrei 7. sætið eins og Ragnar heldur fram og ég bauðst ekki til að víkja úr því.
Í prófkjörinu sóttist ég eftir 4. sæti og fer ekki leynt með að ég varð vonsvikinn að hafna í 7. sæti. Dagana eftir prófkjörið íhugaði ég að taka ekki sæti á listanum. Eftir mikla hvatningu frá stuðningsmönnum mínum ákvað ég að taka 7. sætið og berjast af heilum hug fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn héldi meirihluta.
Þetta sagði ég Ragnari og félögum hans í kjörnefnd á fundi skömmu eftir prófkjörið og sömuleiðis að ég myndi ekki vilja færast neðar á listann eða að aðrir yrðu færðir upp fyrir mig. Það kom mér því á óvart þegar ég var kallaður aftur á fund kjörnefndar og mér boðið neðsta sætið á listanum. Á þeim fundi afþakkaði ég sæti á listanum. Síðar var mér boðið 8. sæti listans, sem ég þáði ekki heldur. Ég vildi heldur hleypa nýju fólki að og að þeir sem lentu næst á eftir mér í prófkjörinu fengju framgang á listanum.
Þessi ákvörðun sat í mér og ég hugleiddi hvort ég væri að bregðast félögum mínum í bæjarstjórn með því að taka ekki sæti á listanum, þó það væri „heiðurssæti“ neðst á listanum. Ég er ekki vanur að hlaupa frá verkum mínum. Ég ákvað því að lokum, kvöldið áður en listinn var samþykktur, að taka 21. sætið á listanum til að sýna stuðning við samstarfsfólk mitt og að ég væri stoltur af þeim verkum sem ég hef tekið þátt í að vinna að í bæjarstjórn á kjörtímabilinu. Þetta vildi ég gera í sátt við alla hlutaðeigandi.
Á fundi í fulltrúaráði flokksins þar sem framboðslistinn var samþykktur kom fram tillaga um að prófkjörið yrði látið standa og ég myndi þar af leiðandi verða í 7. sæti. Á fundinum sagðist ég ekki vilja taka 7. sætið vegna þess að ég hefði ekki fengið nógu góða kosningu í prófkjörinu. Þar vó þó einnig þungt þó að ég léti það kyrrt liggja að ég var ósáttur við vinnubrögð þau sem viðhöfð voru við uppröðun á listanum.
Um annað sem Ragnar Örn skrifar eða vinnubrögð kjörstjórnar vil ég lítið annað tjá mig. Það er vissulega rétt hjá honum að niðurstaða prófkjörsins var ekki bindandi. Það þarf þó að vanda vel til verka og er ekki hafið yfir gagnrýni þegar lítill hópur fólks breytir verulega lýðræðislegri niðurstöðu úr prófkjöri þar sem um 1.500 manns taka þátt, hversu góða ástæðu sem menn telja sig hafa fyrir breytingunum og hversu nákvæmlega þeir fylgja reglunum.
Pólitíkin hefur ekki sérlega góða ímynd þessa dagana og til að fá fleira ungt fólk og fleiri konur að pólitísku starfi er mikilvægt að auka gegnsæi. Þessi grein er innlegg mitt og ekki til þess ætluð að ýfa upp sár eða búa til leiðindi.
Ég vona að þeir sem kusu mig í prófkjörinu og studdu mig með ráðum og dáð skilji þessa ákvörðun mína. Listi Sjálfstæðisflokksins liggur fyrir og nú leggjum við verk okkar og endurnýjaða forystusveit undir dóm kjósenda.
Einar Þórarinn Magnússon