Raunhæfur niðurskurður án blóðugs uppskurðar
Þær hugmyndir sem fram koma í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna – sem kenna sig við vinstri velferð – mælast vægast sagt illa fyrir. Fjölmörg mótmæli um land allt eru skýr skilaboð um að fólki sé misboðið það óréttlæti sem fram kemur í frumvarpinu. Meira að segja eru þingmenn stjórnarflokkanna á hröðu handahlaupi frá þeim tillögum sem fram eru settar.
Það gefur okkur þá von að í meðförum þingsins takist okkur að bægja frá þessum glórulausu niðurskurðartillögum. Við verðum öll að viðurkenna að það er þörf á að draga saman í opinberum rekstri. Við þurfum hinsvegar að gera það á skynsaman og réttlátari hátt.
Glórulaus niðurskurður
Hugmyndir um að skera niður 55% af sjúkrasviði Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja eða lækka fjárframlagið úr 898 milljónum niður í 404 milljónir. Það segir sig sjálft að hér er ekki um niðurskurð að ræða heldur er verið að leggja sjúkrasviðið niður í núverandi mynd. Það eitt er ámælisvert, annað er samráðsleysið við heimamenn og fagfólk. Það sem þó er verst er að forsendur þessara breytinga eru engar. Gömul stefna um að færa allt til Reykjavíkur er ekki boðleg sem forsenda á krepputíma. Ekki hefur verið sýnt fram á hagræðinguna en hinsvegar er ljóst að legudagar eru bæði færri og mun ódýrari á landsbyggðinni. Hvernig hægt er að færa þúsundir legudaga, hundruði sjúklinga til Reykjavíkur þar sem þjónustan er mun dýrari án þess að fjölga fólki og byggja upp þar – er mér hulin ráðgáta. Í veðri hefur verið látið vaka að unnið sé samkvæmt langtíma stefnumótun – stefnumótun um verulegar breytingar á heilbrigðisþjónustu við landsmenn. Stefnu um að á landinu séu tvö sjúkrahús í Reykjavík og á Akureyri. Þessi umræða hefur hvorki verið við fagfólk á landsbyggðinni né heimaaðila. Ekki hefur verið sýnt fram á heildarsparnað eða hagræðingu – hvað þá að verið sé að bæta þjónustuna.
Hvað er til ráða
í fyrsta lagi verðum við að átta okkur á því að allt 85% kostnaðar á sjúkrasviðum falla til annarsvegar á Landspítalanum (36 milljarðar) og Sjúkratryggingum Íslands (28 milljarðar). HSS er með 1.3% af heildarkostnaði við sjúkrasvið. Það er því augljóst þegar þarf að spara þá finnast ekki flestar krónurnar í minnsta herberginu.
Í öðru lagi verðum við að spyrja okkur hvaða grunnþjónustu við ætlum að verja. Er það ekki heilbrigðisþjónusta óháð búsetu og efnahag? – Ef svarið er já þá á að verja hana.
Í þriðja lagi verðum við að finna meiri tekjur – þar getum við m.a. horft til skattlagningar séreignasparnaðar. Tillögur sem m.a Pétur Blöndal ofl. hafa verið með og gætu skilað allt að 10 milljörðum á ári. Einnig má horfa til að auka tekjur þjóðarbúsins með því að auka þorskkvóta en líka með að hefja framkvæmdir strax við orkukrefjandi iðnað og virkjanir. Atvinnutækifærin eru næg á Suðurnesjum svo og vinnufúsar hendur – Helguvík- höfn, álver, kísiliðja, Ásbrú- Keilir, ECA, gagnaver og Hs-Orka -öll þessi verkefni bíða eftir ræsingu og eru í startholunum.
Þannig færi allt atvinnulíf af stað og þannig gætum við beitt niðurskurðarhnífnum á skynsamari og réttlátari hátt.
Sigurður Ingi Jóhannsson
alþingismaður