Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Raunhæf loforð - hugsun til alls fyrst
Fimmtudagur 17. maí 2018 kl. 10:27

Raunhæf loforð - hugsun til alls fyrst

Þegar við heyrum orðið velferð hvað kemur upp í hugann?

Velferð er ansi vítt hugtak sem margt fellur undir. Þegar ég heyri orðið velferð þá hugsa ég að fólk hafi það gott, bæði fullorðnir og börn. Börn hafi það sem þau þurfa, ekki endilega það sem þau langar. Fólk hafi þak yfir höfuðið, hafi örugga innkomu, börn fái dagvistun við hæfi, séu að stunda einhverjar tómstundir og að þeim líði vel, þau fái nóg að borða, næga ást og umhyggju. Í hinum fullkomna heimi skortir engan neitt og allir hafa og fá það sem þeir þarfnast.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það styttist í kosningar og við þurfum að vera raunsæ. Mig langar að lofa ykkur öllu fögru, mig langar að lofa ykkur húsnæði fyrir alla, fríum skólamat fyrir börnin, fríu tómstundastarfi, ungbarnaleikskóla strax, að við spörkum mengandi stóriðju út úr bænum okkar, tvöföldun Reykjanesbrautar, fullkomnu heimilislæknakerfi o.s.frv. o.s.frv. En við verðum að vera raunsæ og stíga varlega til jarðar, ekki lofa upp í ermina á okkur þó að okkur langi til þess, vegna þess að íbúar Reykjanesbæjar eiga meira skilið.

Þrátt fyrir betri afkomu Reykjanesbæjar þá er enn þá langt í land þegar kemur að skuldastöðu bæjarins. Við getum ekki rokið til og gert allt sem okkur langar til strax eftir kosningar, kl. 9:00, mánudaginn 28. maí. Hinsvegar getum við hugsað, skoðað, rýnt og skipulagt til framtíðar. Þrátt fyrir að geta ekki strax brett upp ermar og framkvæmt getum við brett upp ermar og undirbúið okkur.

Framtíðarsýn er ekki bara plan til næstu fjögurra ára. Framtíðarsýn er til næstu 10, 20 og jafnvel 50 ára. Þessi langtímasýn á framtíð Reykjanesbæjar er nokkuð sem mér hefur fundist algjörlega vanta. Góðir hlutir gerast hægt - en þeir geta ekki gerst ef við sjáum þá ekki einu sinni fyrir okkur - ef við plönum þá ekki.

Ég hef fulla trú á því að með samstarfi, skynsemi, útsjónarsemi og elju séum við íbúar í Reykjanesbæ fær í flestan sjó. Ég trúi því að bæjarfélagið okkar muni halda áfram að blómstra og dafna. Ég veit líka að með því að huga að því strax, og byrja að undirbúa, gerum við það betur og jafnvel enn fyrr.

 

Díana Hilmarsdóttir, skipar annað sætið á B listanum í Reykjanesbæ.