Raunfærnimat í Verslunarfulltrúa
Vinnur þú við verslun og þjónustu eða hefur reynslu af því? Langar þig til að styrkja stöðu þína á vinnumarkaði eða bæta við menntun þína? Ef þú ert orðin/orðinn 23 ára og hefur unnið verslunar- og þjónustustörf í þrjú ár eða lengur ættir þú að lesa áfram og kynna þér málið.
Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS) býður nú í haust upp á raunfærnimat í Verslunarfulltrúa. Það er 29 eininga starfstengt nám á framhaldsskólastigi. Matið er þátttakendum að kostnaðarlausu.
Raunfærnimat er frábær leið fyrir fólk til þess að kortleggja færni sína og auka möguleikana á ýmsum sviðum. Margir einstaklingar á vinnumarkaðnum hafa í gegnum áralanga reynslu, byggt upp umtalsverða færni en ekki lokið námi af einhverjum ástæðum. Þessir einstaklingar búa yfir raunfærni sem vert er að skoða og meta. Raunfærnimat er ferli þar sem metin er þekking og færni á ákveðnu sviði, sem einstaklingur hefur náð með ýmsum hætti, s.s. starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, skólanámi og félagsstörfum.
Á undanförnum árum hafa rétt tæplega fjögur þúsund einstaklingar farið í gegnum raunfærnimat í ýmsum iðn- og verkgreinum, auk raunfærnimats í almennri starfshæfni, hjá MSS og öðrum símenntunarmiðstöðvum um allt land. Það er samdóma álit þeirra að það hafi styrkt stöðu þeirra og sjálfstraust. Margir hafa í kjölfarið lokið löggiltu námi.
Matið fer þannig fram að þátttakendur mæta nokkrum sinnum í Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Krossmóa 4, Reykjanesbæ. Eftir kynningu og einstaklingsviðtal við náms- og starfsráðgjafa, hefst matsferlið. Gerð er færniskráning og í kjölfarið fer fram matssamtal þar sem fagaðili metur stöðu viðkomandi í faginu. Matið er staðfest með vottun og skráningu metinna eininga í Innu, skráningarkerfi framhaldsskólanna.
Við raunfærnimat í Verslunarfulltrúa eru þátttakendur metnir skv. námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins til 29 framhaldsskólaeininga. Markmiðið er að þeir geti stytt nám í framhaldinu og sýnt fram á reynslu og færni í starfi eða atvinnuumsókn. Eftir matið geta þátttakendur tekið ákvörðun um að ljúka við það sem uppá vantar í námi, nýtt matið sem stökkpall í annað nám eða nýtt það til að skoða hvar þeir eru staddir og hvert þeir vilja stefna með hliðsjón af því.
Hér koma að lokum ummæli eins þeirra sem fór í gegnum raunfærnimat í Verslunarfagnámi hjá MSS, Kristins Sigurjónssonar sölumanns í Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli. Hann er nú nemandi við Háskóla Íslands:
Aðalástæðan fyrir því að ég fór í raunfærnimat var að mig langaði í háskólanám. Ég lauk ekki stúdentsprófi á sínum tíma en kláraði verslunarskólanám í Danmörku. Hefur alltaf langað til að starfa í markaðsgeiranum og langaði í viðskiptafræði í HÍ. Ég hafði því samband við náms- og starfsráðgjafa og fór í raunfærnimat hjá MSS og átti eftir það auðveldara með að sækja um í háskólanum. Í dag stunda ég nám í Háskóla Íslands með fullri vinnu og gengur vonum framar. Hef þroskast mikið sem einstaklingur og öðlast áhuga fyrir námi. Ég er með mikla lesblindu sem hefur fram að þessu haft neikvæð áhrif á mig. Háskóli Íslands býður upp á mjög góða þjónustu fyrir þá sem eiga við námsörðugleika að stríða. Raunfærnimatið hefur fært mér vilja og trú á að ég geti lært og ég myndi ráðleggja öllum að skrá sig í raunfærnimat hjá næstu símenntunarstöð. Það er ómetanlegt að fá starfsreynslu sína metna fyrir nám og gefur af sér óteljandi nýja möguleika í lífinu.
Nánari upplýsingar veitir Arndís Harpa Einarsdóttir, náms- og starfsráðgjafi við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, í síma 412-7500 eða tölvupósti; [email protected]