Raunfærnimat – fyrir hvern og til hvers?
Raunfærnimat er fyrir þá einstaklinga sem hafa starfað á ákveðnu sviði í nokkurn tíma og vill annað hvort ná sér í menntun á því sviði eða fá yfirlit yfir þekkingu sína. Hægt er að nota matið í atvinnuleit eða til að sýna vinnuveitanda fram á tiltekna þekkingu. Raunfærnimatið getur líka stytt þér leiðina kjósir þú að nota það til að fara í nám á þessu sviði.
Ekki er verið að raunfærnimeta öll störf – iðngreinarnar eru flestar komnar undir raunfærnimat , sjá www.idan.is. MSS mun bjóða upp á tvenns konar raunfærnimat haustið 2012, í skrifstofugreinum og verslunarfagnámi.
Raunfærnimat í skrifstofugreinum – Hefur þú starfað við skrifstofustörf?
Hér er verið að meta þekkingu í skrifstofustörfum og er miðað við námskrá Skrifstofuskólans I hjá MK sem er 33 eininga nám. MSS hefur í tvígang boðið upp á raunfærnimat í skrifstofugreinum, vorið 2011 og vorið 2012. Meðaltal metinna eininga hjá þátttakendum MSS í skrifstofugreinum í báðum verkefnum var 17 einingar.
Þátttakendur verða að vera orðnir 23 ára gamlir og hafa starfað við skrifstofustörf í a.m.k. 5 ár.
Mig langaði til að mennta mig meira en vissi ekki hvar ég ætti að byrja og hvort ég væri með nógu góða undirstöðu til þess að hella mér út í nám eftir svo langan tíma. Ég var mjög stressuð til að byrja með en róaðist fljótlega þar sem allir sem að matinu komu voru indælis fólk sem var mjög gott að tala við. Útkoman úr raunfærnimatinu kom mér á óvart, fékk fleiri einingar út úr því en ég hafði látið mig dreyma um. Ég er að hugsa um að skella mér á Skrifstofubrautina hjá MK í haust. Sé það núna að ég er ekkert búin að gleyma öllu sem ég hef lært um ævina og held að ég geti skellt mér út í meira nám án þess að hika.
Elenóra Katrín Árnadóttir, skólaritari í Myllubakkaskóla
Raunfærnimat í verslunarfagnámi – Hefur þú starfað við verslunarstörf?
Hér er metin þekking í verslunarstörfum og þjónustu og er miðað við námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Verslunarfagnám, sem er 51 eininga nám á framhaldsskólastigi. Þátttakendur verða að vera orðnir 23 ára gamlir og hafa starfað við verslunarstörf í a.m.k. 3 ár.
Hvernig fer raunfærnimat fram?
Fyrsta skrefið er hafa samband við Jónínu Magnúsdóttur, náms- og starfsráðgjafa hjá MSS – [email protected], sími 412 5958/421 7500 og bóka viðtal. Einnig er hægt að hafa samband við Evu Agötu Alexdóttur, pólskumælandi ráðgjafa hjá MSS, [email protected], sími 412 5954/421 7500. Tekið skal fram að allt mat fer þó fram á íslensku.
Í viðtalinu við námsráðgjafa er ferlið kynnt, skoðað hvort þú eigir erindi í raunfærnimatið og svo þarftu að taka ákvörðun – viltu taka þátt? Ef svarið er játandi fer námsráðgjafinn yfir áframhaldandi ferli með þér. Ferlið er ekki tímafrekt og kostar einstaklinginn ekkert.
Ef þú hefur áhuga og vilt fá frekari upplýsingar, ekki hika við að hafa samband – að hika er sama og tapa. Hlökkum til að heyra frá þér.Fyrri þátttakendur hafa öðlast meiri trú á eigin getu og eigin kunnátta komið þeim á óvart, sjálfstraust hefur aukist og flestir hafa farið í áframhaldandi nám og styrkt þannig stöðu sína á vinnumarkaði.
Jónína Magnúsdóttir,
náms- og starfsráðgjafi
– [email protected], sími 412 5958
Eva Agata Alexdóttir,
pólskumælandi ráðgjafi MSS – [email protected], sími 412 5954
Elenóra Katrín Árnadóttir, skólaritari í Myllubakkaskóla er einn þeirra einstaklinga sem tók þátt í raunfærnimati í skrifstofugreinum í vor.