Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Rányrkja eða sameiginlegir sjóðir
Fimmtudagur 21. febrúar 2013 kl. 09:03

Rányrkja eða sameiginlegir sjóðir

Í nýrri skýrslu ASÍ um lífskjör á Norðurlöndum kemur fram að af Norðurlöndunum er skattbyrði lágtekna lægst á Íslandi, á meðan skattbyrði meðaltekna er sambærileg við það sem þekkist Noregi en hærri en í Svíþjóð. Skattbyrði hátekna er hins vegar lægri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum.

Á síðasta kjörtímabili hefur verið sterk mantran um að ríkisstjórnin sé gjörsamlega að ganga frá atvinnulífinu með skattpíningu og algerlega ástæðulausum skattahækkunum. Stjórnmálamenn hafa svo sannarlega tekið þátt í þessari umræðu og vísað málflutningi sínum til stuðnings til orða forsvarsmanna samtaka atvinnulífsins. Þeir hafa haldið því fram að hér verði að lækka skatta á fyrirtæki og fjármagnseigendur og hafa í þessari umræðu notað orð eins og rányrkju og vísað til erlendir fjárfestar líti ekki lengur á Ísland sem hluta Evrópu heldur sem nyrsta Afríkuríkisins vegna óhóflegara skatta á fyrirtæki og fjármagn. Það er skiljanlegt að þegar slíkum áróðri er stanslaust haldið á lofti þá fari fólk að lokum að trúa. Dropinn holar steininn.

Staðreyndirnar tala

Það sem merkilegt er að á sama tíma og fyrrgreind umræða hefur farið fram þá er staðan sú á Íslandi að skatthlutfall lögaðila er með því lægsta sem gerist í ríkjum OECD, tekjuskattsgreiðslur lögaðila sem hlutfall af VLF eru með því lægsta sem þekkist, skattar á fjármagnstekjur eru hér lægri en víðast annars staðar og samanlagður skattur á tekjur af rekstri, þ.e.a.s. hagnaði og arði, er lágur.

Fyrir hrun höfðu stjórnvöld hannað skattkerfið með hagsmuni fjármálaaflanna að leiðarljósi. Þegar bólan sprakk sat eftir óréttlátt skattkerfi sem hvorki gat aflað tekna fyrir útgjöldum né tekið á afleiðingum hrunsins. Vinstri stjórnin breytti þessu ósjálfbæra og óréttláta skattkerfi. Þannig hækkuðu skattar hjá sumum en héldust óbreyttir eða lækkuðu hjá öðrum. Tekjur ríkisins voru auknar með breytingum sem lögðu byrðarnar á hátekjufólk, auðugustu Íslendingana, fyrirtæki sem hagnast og þá sem hafa miklar fjármagnstekjur, en heildarskatttekjur eru þó enn verulega lægra hlutfall landsframleiðslu en fyrir hrun.

Hvernig viltu dreifa sköttum?

Með ólíkum skattkerfum er hægt að færa til fjármagn og ráðstafa sameiginlegum sjóðum á mismunandi vegu. Þannig er hægt að búa til með ólíkum skattkerfum hópa sem njóta forréttinda í skattamálum eða leyfa fjöldandum að njóta sameiginlegra sjóða með sanngjörnum hætti og tryggja opinbera þjónustu. Með breytingum síðustu ára var byrðunum dreift með sanngjarnari hætti en gert var fyrir hrun. Með því að leggja til lækkun skatta á fjármagnseigendur er verið að leggja til breytingar aftur til hins gamla óréttláta skattkerfis. Ég vona að við berum gæfu til sjá að við eigum öll að borga okkar skatta með réttlátum hætti og njóta svo sameiginlega þjónustunnar sem borguð er með skatttekjunum. Það á ekki að færa smáum hópum hinna betur settu forréttindi á kostnað fjöldans.

Arndís Soffía Sigurðardóttir Lögfræðingur 1. sæti VG í Suðurkjördæmi
Inga Sigrún Atladóttir Guðfræðingur 2. sæti VG í Suðurkjördæmi

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024