Rannsókn á falli sparisjóðanna
Við fall Sparisjóðsins í Keflavík töpuðu margir miklum fjármunum. Flestir þeirra gerðu sér vonir um að við uppgjör ætti bankinn eignir sem skiluðu sér til eigenda hans. Ólíklegt er að svo muni verða. Sjóðurinn virðist standa strípaður eftir fallið. Greiða þarf milljarða króna úr ríkissjóði til að bjarga almennum innstæðum í Sparisjóðnum.
Við slíkar aðstæður er eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvernig standi á þessum ósköpum. Hvers vegna var fall Sparisjóðsins í Keflavík svo hátt? Voru það ákvarðanir stjórnenda bankans sem gerðu fallið svo stórkostlegt? Voru það kannski ákvarðanir stjórnarmanna sem mestum usla ollu? Voru þeir sem bankinn lánaði peninga ekki traustsins verðir? Yfir þessu velta Suðurnesjamenn vöngum. Margir þeirra höfðu notað sparifé sitt til að fjárfesta í stofnbréfum banka sem þeir töldu að stæði vel og urðu fyrir gríðarlegu tjóni. Sumir töpuðu enn meira en þeir höfðu lagt í bankann þar sem haldið hafði verið að þeim að það væri tilvalið að taka erlent lán fyrir auknu stofnfé í þessum „stönduga“ banka Suðurnesjamanna. Áhættan var því miður miklu meiri en þeim hafði verið talin trú um.
Því hefur verið haldið fram að í raun hafi Sparisjóðurinn í Keflavík verið rekinn með tapi í alllangan tíma ef litið væri einungis til grunnstarfsemi hans. Síðasta áratug hafi gengishagnaður af hlutabréfum í Exista verið ástæðan fyrir jákvæðum tölum í bókhaldi bankans.
„Hvernig getur það verið að Sparisjóðurinn okkar, sem árlega gumaði af svo feiknagóðri afkomu og blómlegu búi, sé hruninn með margra milljarða skuld á bakinu?“ spyr Jórunn Tómasdóttir í góðri grein sem birt var á vef Víkurfrétta fyrir rúmu ári síðan og bar yfirskriftina Im memoriam. Í þeirri grein fór Jórunn yfir upprunalegt hlutverk Sparisjóðsins og þær stoðir sem þessi stofnun var byggð á, stofnun sem starfaði í 103 ár og var eitt af flaggskipum Suðurnesjamanna árum saman. Þar var almannahagur aðalatriðið, að styðja við atvinnu og menningu og að ávaxta sparifé almennings. Sparisjóðurinn hafi hinsvegar fjarlægst þetta hlutverk sitt síðustu starfsárin.
Alþingi hefur nú skipað nefnd sem leita á sannleikans um aðdraganda og orsök rekstrarerfiðleika og gjaldþrots sparisjóðanna á Íslandi og gera ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur leikur á um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum. Nefndin á að skila niðurstöðum sínum fyrir 1. júní 2012. Gagnrýnt hefur verið hve seint þessi nefnd er skipuð. Því er til að svara að setja þurfti sérstök lög um þessar rannsóknir. Það var vandasamt og tafsamt en nú er óvissan að baki. Framundan er ítarleg rannsókn þar sem varpað verður ljósi á þá atburði sem leiddu til falls Sparisjóðsins í Keflavík. Með löngu tímabærri rannsókn Alþingis á falli sparisjóðanna munu getgátur víkja fyrir staðreyndum og málum vísað í réttan farveg.
Oddný Harðardóttir
alþingismaður