Rangfærslur í grein Hannesar Friðrikssonar
Stefán Árni Stefánsson skrifar.
Eftir lestur greinar Hannesar Friðrikssonar um neikvæð áhrif iðnaðarsvæðisins í Helguvík á loftgæði í bænum finnst mér þörf á að leiðrétta rangfærslur sem fram koma í henni. Í greininni vitnar Hannes skýrslu Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrif stóriðjunnar með þeim hætti að stofnunin telji að loftgæði íbúa Reykjanesbæjar verði verulega skert rísi verksmiðja Thorsil. Þetta er einfaldlega ekki rétt hjá honum. Í skýrslu Skipulagsstofnunar eru umhverfisáhrif flokkuð í sjö flokka:
- verulega neikvæð
- talsvert neikvæð
- nokkuð neikvæð
- óveruleg
- nokkuð jákvæð
- talsvert jákvæð
- verulega jákvæð
Engir matsþættir, utan sjónmengunar frá Garðskagavegi, eru að mati Skipulagsstofnunar verulega neikvæðir og hvergi kemur fram að loftgæði íbúa verði verulega skert. Í skýrslunni kemur fram að staðbundin mengun innan þynningarsvæðis verði talsvert neikvæð, en það er jafnframt álit Skipulagsstofnunar að utan þynningarsvæðis séu allir matsþættir innan viðmiðunarmarka reglugerða. Samkeppnisaðili Thorsil, United silicon, hélt því fram í athugasemdum við matsskýrslu Thorsil að framkvæmdin ylli verulegum neikvæðum áhrifum á loftgæði á svæðinu. Skipulagsstofun leitaði sérfræðiálits Sigurðar Magnúsar Garðarssonar, prófessors við umhverfis- og byggingaverkfræðideild Háskóla Íslands, við mat á framlögðum gögnum og voru þessar athugasemdir United silicon hraktar í áliti stofnunarinnar.
Niðurstöður skýrslu Skipulagsstofnunar miða við að stóriðjuverin þrjú í Helguvík verði öll starfandi á hámarksafköstum, en hvort framleiðsla í Helguvík nær nokkurn tímann því takmarki er í fullkominni óvissu. Stóriðjuverin verða öll reist í áföngum og Skipulagsstofnun leggur til að fylgst verði með þróun mengunar með samfelldri vöktun, þannig að hægt verði að bregðast við standist forsendur ekki.
Samkvæmt reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur er hægt að takmarka starfsemi ef mengun er meiri en búast mátti við og heimil er. Skipulagsstofnun beinir því til Umhverfisstofnunar að slíkt verði skoðað við reglubundna endurskoðun starfsleyfis.
Með leyfisveitingum til Thorsil er því ekki verið að taka óafturkræfa ákvörðun í umhverfismálum og stjórnkerfið hefur mikla möguleika til að grípa inn í komi í ljós að forsendur hafi verið rangar í upphafi.
Stefán Árni Stefánsson
íbúi í Reykjanesbæ