Rangar forsendur en rétt niðurstaða
Mér varð nokkuð á í messunni í framsetningu talna í nýlegri grein á vf.is og þykir mér það afar leitt. Vil ég biðja hlutaðeigandi, einkum Century, einlæglega afsökunar á því. Ég stend engu að síður við niðurstöðuna sem er í góðu samræmi við niðurstöðu Viðskiptablaðsins þann 18. febrúar s.l. eins og ég greindi frá í grein minni. Einar Jón Pálsson, bæjarfulltrúi í Garði og stuðningsmaður álvers í Helguvík, uppgötvaði talnabrengl mitt og vakti athygli á því á vf.is. Ég kann Einari bestu þakkir fyrir og mér er bæði ljúft og skylt að setja málið fram með öðrum og réttari hætti. Held mig í þeim efnum við greiningu Viðskiptablaðsins sem ég vísaði reyndar til í fyrri grein minni þótt þess sé látið ógetið í grein Einars Jóns. Niðurstaðan er sú sama: Century vantar að óbreyttu um 360 MW af þeim 625 MW sem álverið í Helguvík þarf. Century, orkufyrirtækin og orkumálayfirvöld hafa ekki getað svarað hvaðan sækja á þá orku sem upp á vantar þrátt fyrir að ítrekað hafi verið spurt.
Eins og sjá má á töflunni hér að ofan vantar Century að óbreyttu 358,6 MW. Það er að því gefnu að Orkustofnun veiti HS-orku leyfi til stækkunar á Reykjanesvirkjun sem er alsendis óvíst þar sem svæðið er þegar ofnýtt, sbr. skýrslu Orkustofnunar. Fáist ekki leyfi Orkustofnunar vantar 80 MW meira. Þarna er líka gengið út frá því að Century fái orku úr Eldvörpum sem er alsendis óvíst. M.ö.o. gæti niðurstaðan verið töluvert verri fyrir Century en komist er að í greiningu Viðskiptablaðsins.
Skýringar:
* Krýsuvík er í landi Grindavíkur, Hafnarfjarðar og Voga. Sveitarfélögin, sem fara með skipulagsvaldið hafa ekki lýst því yfir að þau hyggist afhenda þessa auðlind sína til Century. Grindavík hefur þar að auki sett fram auðlindastefnu þar sem horft til þess að nýta orku innan sveitarfélagsins. Þess má einig geta að rannsóknir til þess að afkastageta svæðisins sé minni en 445 MW.
** Í þriggja ára áætlun Reykjavíkurborgar kemur fram að ekki eru fyrirhugaðar nýjar virkjanir á vegum OR. Ef það breytist er Hverahlið líklega fyrst í röðinni en OR hefur eyrnamerkt kísilverksmiðju í Ölfusi orkuna sem þar er að finna. Jafnframt eru skipulagsmál óleyst og samkomulag milli OR og Ölfuss gerir það að verkum að óvíst er um hvort skipulagsvinnan uppfylli lög, sbr. ákvörðun umhverfisráherra í hliðstæðum málum við Þjórsá.
*** Landsvirkjun, sem myndi virkja Þjórsá ef til þess kæmi, hyggst hinsvegar ekki selja meiri orku til nýrra álvera á SV horninu. Fyrirtækið vill selja orkuna á hærra verði og forðast að auka áhættu í rekstri sínum með því að setja enn fleiri egg í sneisafulla körfuna. Hugsanlega fengi Norðurál svokallaða umframorku frá Landsvirkjun til skammstíma.
**** Bitruvirkjun við Ölkelduháls er afar umdeild og voru yfir 1.000 aðilar sem gerðu athugasemdir við skipulagstillögu sveitarfélagsins sumarið 2008. Enn hefur ekki verið gengið frá skipulaginu. Samkomulag milli OR og Ölfuss gerir það að verkum að óvíst er um hvort skipulagsvinnan uppfylli lög, sbr. ákvörðun umhverfisráherra í hliðstæðum málum við Þjórsá. Í þriggja ára áætlun Reykjavíkurborgar kemur fram að ekki eru fyrirhugaðar nýjar virkjanir á vegum OR. Ef allt þetta leysist og svo ólíklega færi að Century fengi orku þaðan vantar eftir sem áður 173,6 MW þann tíma sem 50 MW umframorka Landsvirkjunar væri til taks en 223,6 MW myndi vanta þegar Landsvirkjun myndi finna betri kaupendur.
Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.