Rafmagnskreytingar í Kálfatjarnarkirkjugarði
Skömmu fyrir jól barst okkur í sóknarnefnd Kálfatjarnarkirkju óformlegt erindi þar sem óskað var eftir að reglur um skreytingar í Kálfatjarnarkirkjugarði yrðu teknar til endurskoðunar. Þar sem liðið var á aðventuna og fólk farið að setja upp leiðisskreytingar vildum við ekki taka upp reglurnar á þeim tíma því. Gefið var loforð um að reglurnar yrðu teknar til umræðu eftir jól. Vegna greinar sem birtist í síðasta tölublaði Víkurfrétta viljum við gera grein fyrir þeir reglum sem eru í gildi um jólaskreytingar í garðinum og hvers vegna þær voru settar.
Kálfatjarnarkirkja er timburkirkja sem var vígð árið 1893 og er ein stærsta sveitakirkja landsins. Fyrir nokkrum árum var ákveðið að leiða rafmagn í kirkjugarðinn við kirkjuna svo aðstandendur hefðu möguleika á að setja rafmagnsljós á leiði. Rafvirki var fenginn til að leggja rafmagn í garðinn og leggja til skreytingar sem hann leigir aðstandendum. Rafvirkinn sér um að alltaf sé gætt fyllsta öryggis, rafmagnsskreytingarnar séu alltaf í góðu lagi og tengingar séu eins og best verður á kosið. Þar sem kirkjugarðurinn hefur ekki sérstakan umsjónamann hefur þetta fyrirkomulag hentað vel. Það er mikilvægt að allar rafmagnsskreytingar séu eins öruggar og hægt er, ekki síst vegna nálægðar við kirkjuna. Allar skreytingar sem ganga fyrir rafhlöðum hafa alltaf verið leyfðar í garðinum og hafa þær talsvert verið notaðar.
Sóknarnefndin harmar þann leiða atburð sem átti sér stað í garðinum í kringum jólin og skrifað var um í síðasta tölublaði Víkurfrétta. Vegna óþæginda sem starfsmenn kirkjunnar hafa orðið fyrir vegna umfjöllunar um þetta mál viljum við taka skýrt fram að sá sem tók skreytinguna úr sambandi fyrir jól og klippti síðar á snúruna er ekki starfsmaður kirkjunnar. Sóknarnefnd Kálfatjarnarkirkju vill þó biðjast afsökunar á þessum leiða atburði því að sjálfsögðu á slíkt ekki að eiga sér stað. Sóknarnefndin vill leitast við að vinna í sátt við öll sóknarbörn. Skreytingar á leiðum eru aðstandendum mikilvægar og því afar brýnt að öll slík mál séu unnin í sátt. Við viljum taka fram að umrætt mál hefur nú verið leitt til lykta á farsælan hátt og vonum við að ekki verði frekari eftirmálar af því.
Framkvæmdarnefnd Kálfatjarnarkirkju