Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Raflínur hluti af rammaáætlun
Laugardagur 9. mars 2013 kl. 19:15

Raflínur hluti af rammaáætlun

Ein af grunnstoðum Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs er náttúruvernd. Náttúruvernd er ekki bara að passa upp á að náttúran sé ekki eyðilögð heldur er náttúruvernd auðmjúk afstaða þeirra sem telja sig ekki yfir náttúruna hafna. Náttúruvernd ítrekar þannig það viðhorf að maðurinn er hluti af náttúrunni, gæslumaður hennar og ábyrgðaraðili. Þess vegna snýst náttúruvernd um að vernda möguleika mannsins til að vera til á jörðinni í langri framtíð.

Landið okkar eigum við öll saman og því er mikilvægt að umgengni um það sé í sem víðtækastri sátt. Á landsfundi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs 2013 var samþykkt að í næsta áfanga rammaáætlunar verði flutningskerfi raforku hluti af áætluninni og því lagt til að aðferðafræði rammaáætlunarinnar verði lögð til grundvallar áframhaldandi stefnumótun. Þetta er í samræmi við niðurstöðu jarðstrengjanefndar sem var skipuð af atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra í samræmi við ályktun Alþingis frá í fyrra. Í nefndinni komu m.a. saman fulltrúar Landsnets, orkufyrirtækja, landeigenda og Landverndar og leitast við að ná víðtækri sátt um málið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nefndin var einhuga um það að bæta þyrfti tafarlaust úr því formleysi sem kerfisáætlun Landsnets býr í framkvæmd við. Áætlunin er í dag innanhússplagg sem yfirvöld koma hvergi að. Sem slík er kerfisáætlun algerlega óskuldbindandi fyrir sveitarfélög, við skipulagsgerð og ákvarðanir um einstakar framkvæmdir. Meðal annarra niðurstaðna nefndarinnar er að Landsneti skuli gert að leggja fram til kynningar raunhæfa valkosti fyrir hverja framkvæmd fyrir sig. Sú leið er farin víða erlendis.
Í stefnu Vinstri grænna er víðtæk niðurstaða nefndarinnar hluti af næsta áfanga rammaáætlunar og þar sem Landsnet stóð sjálft að ákvörðunum nefndarinnar má ætla að fyrirtækið sé sátt við niðurstöðuna. Það er ánægjulegt að sátt sé að nást um flutningskerfi raforku á Íslandi því ekki aðeins hafa sveitarstjórnir og landeigendur kvartað yfir því hve illa lögfest vinnubrögð Landsnets eru heldur hefur forstjórinn einnig ítrekað að formfesta þyrfti betur þær leiðir sem fyrirtækið fer í stefnumótun sinni.
Slík sátt snýst ekki aðeins um hvar eiga að vera loftlínur og hvar eiga að vera jarðstrengir heldur einnig um nýtingarmöguleika og ásýnd landsins okkar til lengri og skemmri tíma.

Inga Sigrún Atladóttir
guðfræðingur skipar 2. sæti Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.