Ræðum um framtíð og uppbyggingu í stað niðurrifs og rógs
Þeir ganga hreint til verks vinir vorir sjálfstæðismenn, og senda nú inn á heimili í Reykjanesbæ bækling sem ætlað er að standa vörð um verkefni sem telja má afgreitt af hálfu ríkisvaldsins. Telja að nú séu vondir menn sem hugsanlega geti hér komist til valda, og hyggist stöðva allt það sem hingað til hefur áunnist. Þeir kalla það útkall.
Þeir segja okkur að á sumardaginn fyrsta hafi komið saman 500 manns til að standa vörð um þúsundir vel launaðra atvinnutækifæra í Helguvík. Og er það vel, þó að sú hópmynd sem á forsíðu er sýni að vísu aðeins 156 manns og þar af 34 börn undir fermingaraldri. Kannski er annað sem fram kemur í bæklingnum í svipaðri sannleiksgráðu. Og okkur er gert að sitja uppi með ábyrgðina á verkefninu eftir því hvernig við kjósum á kjördag.
Nú þegar afgreidd hafa verið frá alþingi lög um fjárfestingarsamning vegna verkefnisins eru nú komin ný mál sem þarf að afgreiða, að vísu er annað þeirra mála hlutur sem snýr að umhverfiþættinum og hefur sína eðlilegu leið í gegnum kerfið. Það er spurning um kröfur sem lögin gera og framkvæmdaraðila er gert að uppfylla. Það hefur ekkert með nýja ríkistjórn að gera annað en að ráðherra þarf að staðfesta eftir að þær stofnanir sem um þurfa að fjalla hafa afgreitt málið.
Hitt málið er stuðningur við hafnarmannvirki, hlutur sem ég man nú ekki betur en að lagt hafi verið á mikil áhersla á fundi sjálftæðismanna sjálfra fyrir rúmlega ári síðan með þingmönnum sínum í Sjálfstæðishúsinu í Njarðvík. Þar voru þingmennirnir Björk Guðjónsdóttir, Kjartan Ólafsson, Árni Johnsen og fjármálaráðherran Árni Mathiesen. Ekki virðast þeir nú hafa náð að lenda því máli, og ábyrgðin er nú komin yfir aðra.
Hér fara þeir sjálfstæðismenn alveg nýja leið í kosningabaráttu sinni. Þeir reyna að skapa ófrið um mál sem mikil samstaða hefur verið um, og mikilvægt að leysist á fasælan hátt. Þeir hringja út til ungra kjósenda og segja þeim að nú sé mikilvægt að þeir kjósi þá því þegar hafi verið gert samkomulag á milli Vinstri grænna og Samfylkingar þar sem Samfylking hafi samþykkt að slá af framkvæmdir í Helguvík, ef Vinstri Grænir fallist á aðildarviðræður við ESB. Hvers konar bananalýðveldi halda þeir að sé hér, eða eru þetta vinnubrögð sem þeir eru vanir?
Er nú ekki vænlegra til árangurs að ræða þau mál sem ágreiningur er um frekar en fara alveg niður í lágkúruna og væna alla sem vilja þessu verkefni vel um eyðileggingarstarfsemi gagnvart því, það gera þeir með því að væna Samfylkingu um að hafa gert samkomulag um að slá þetta verkefni af. Ræða um framtíð og uppbyggingu í stað niðurrifs og rógs.
Gleðilegt sumar
Hannes Friðriksson