Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Rabarbara-Rúnar
Laugardagur 4. ágúst 2012 kl. 11:26

Rabarbara-Rúnar


Morguninn var einstakur. Föstudagur og mikið framundan. Ég sá fyrir mér græna fingur í Kátakoti vinafólksins. Átti von á góðri uppskeru, bragðmikilli oxansýrðri tröllasúru. Klæddi mig í demínbrók og lillabláa skyrtu. Peysunni tyllt á bakið. Sænska aðferðin segja sumir. Gott að vera laus við stífu skrifstofufötin. Kvaddi hundinn og steig út í morgunblíðuna. Kaffi og kræsingar í vinnunni og allir sprækir. Átti fund í hádeginu og viðskiptaaðilarnir í góðu skapi. Buðu upp á sushi veislu sem ég gat ekki neitað. Prjónar og alles. Coca-Cola í tilefni Ólympíuleikanna. Svona eiga allir dagar að vera, hugsaði ég með mér.


Hugurinn var samt úti í sveit. Angandi sumar og sæla. Beið mín. Það tók mig innan við hálftíma að pakka í lok dags. Búinn að hugsa allt í þaula. Þarf ekki mikinn klæðnað. Litla taskan dugði fyrir útilegufatnaðinn. Langar helst að vera berrassaður allan daginn. Áfangastaðurinn bauð vissulega upp á berstrípun en svo verður maður auðvitað að hugsa um nágrannana. Virðulegt fólk í sínum sumarbústöðum. Vill ekki einhverja strípalinga, gargandi af gleði og gamalli gæsku. Spennan blundaði þó í mér þegar ég lagði af stað. Heitur pottur og kaldur á kantinum í bjartri sumarnóttinni. Hvers vegna ekki að fagna og fanga stemninguna? Maður lifir bara einu sinni. Að ég held!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Leiðin greið og traffíkin þjál. Vorkunnarverðir ferðamenn á Brautinni í norðangolu. Leiddu hjólin sín í mótvindi. Reykjavík og Elliðaárnar heilluðu mig eitt augnablik. Sá sjálfan mig með stöng í hönd að kasta. Netta fimmu og þurrflugu. Hellisheiðin rann ljúft í gegn á skikkanlegum hraða. Ýmist einföld eða tvöföld. Vegagerðin í vanda. Í Kömbunum blasti við útblásinn loftbelgur á jörðu niðri. Íþróttahús í Hveragerði. Ja, hérna! Og ég sem hélt að menn hefðu lært af ævintýrunum. Ingólfsfjall og Þrastarskógur í hulu skýja. Sól alls staðar annars staðar um kring. Vegamót að Þingvöllum. Vaðnes og Snæfoksstaðir. Ég er þá á réttri leið. Kerið og gjallgígarnir í kring vöktu athygli að venju. Eigandinn að girða af og gera þetta fína plan. Fjölsóttur staður og einstakur. Með eða án gjaldtöku.


Stefnan tekin á Hraunborgir í allri sinni dýrð. Í bakgarði sumarhúsa Suðurnesjamanna. Eins og litla systir. Og þarna biðu þeir. Gallsúrir og rauðleitir stilkarnir. Æðaber blöðin eins og faðmar úr iðrum jarðar. Teygðu sig í allar áttir. Ég elska að stinga þeim í sykurkar. Bakan steinliggur um helgina. Hætta á nýrnasjokki.