Píratar eru komnir til að vera
Nú er bæjarstjórnarkosningum lokið og ný bæjarstjórn til fjögurra ára að líta dagsins ljós. Við Píratar náðum ekki inn manni en engu að síður munum við minna á okkur og veita bæjarstjórn aðhald með ályktunum, blaðaskrifum og öðrum tækjum sem bjóðast í þeim efnum. Við munum áfram berjast innan Andstæðinga stóriðju í Helguvík í því að koma mengandi stóriðju burt úr Helguvíkinni. Við munum einnig berjast fyrir leiguhúsnæði fyrir bæjarbúa innan Íbúafélags Suðurnesja.
Við ætlum að fylgjast með gagni mála í þeim samningaviðræðum sem eiga sér stað á milli Kölku og Sorpu í sameiningarmálum þeirra á milli. Reykjanesbær er samsettur af Innri Njarðvík, Ytri Njarðvík, Keflavík, Ásbrú og Höfnum. Hafnir hafa oft á tíðum verið út undan hvað varðar framkvæmdir og fleira er varðar bæjarfélagið. Við ætlum að minna á Hafnirnar og margt fleira sem lofað var fyrir þessar kosningar.
Píratar eru komnir til að vera og vilja opnara samfélag, þess vegna hvetjum við bæjarbúa til að tjá sig um það sem þeim finnst betur megi fara og líka yfir því sem gott er gert. Einnig að þrýsta á bindandi íbúa kosningu um þau stóru mál er varðar alla bæjarbúa hverju sinni. Við viljum öll það besta fyrir bæjarfélagið okkar þess vegna þurfum við að setja Reykjanesbæ í besta sæti upp á framtíðina. Í lokin vil ég þakka bæjarbúum fyrir þeirra stuðning í nýafstöðnum bæjarstjórnarkosningum. Píratar standa með þér.
Margrét S Þórólfsdóttir Pírati