Píratar álykta um vöktun loftgæða í Reykjanesbæ
Píratar í Reykjanesbæ viðurkenna nauðsyn atvinnuuppbygginar í Reykjanesbæ. Okkur finnst hinsvegar skorta gagnsæi og upplýsingar um það hver loftmengun í byggðinni getur orðið vegna iðnaðar á Helguvíkursvæðinu. Það er ekki nægilegt að treysta eingöngu á niðurstöður líkanareikninga í umhverfismatsskýrslum. Það minnkar heldur ekki vafann að benda á hversu mikil mengunin verður, miðað við mengun frá eldgosi, eins og bent var á í nýlegri blaðagrein.
Mengun frá starfsemi í Helguvík er ein helsta ástæðan fyrir áhyggjum stórs hluta bæjarbúa Reykjanesbæjar af uppbyggingunni þar. Upplýsingagjöf um loftgæði er lykill að því að íbúum bæjarins finnist þeir njóta vafans vegna mengunar frá iðnaðarsvæðinu. Þess vegna hvetjum við til þess að ákvæði reglugerða um mælingar og vöktun á efnum í andrúmslofti verði fullnýtt við íbúabyggðina sem næst er Helguvík.
Heilsuspillandi loftmengun
Í norðangolunni á góðviðrisdögum finna margir í Reykjanesbæ lyktina frá mjölvinnslu Síldarvinnslunar í Helguvík. Þetta gerist þrátt fyrir að í starfsleyfi hafi rekstraraðili samþykkt að þegar vindátt stefnir að byggð skuli forðast notkun lág-gæða hráefnis sem skapar mikla lyktarmengun. Við sömu aðstæður berst önnur heilsuspillandi mengun einnig yfir íbúðabyggðina. Í skýrslu Síldarvinnslunnar um grænt bókhald kemur fram að verksmiðjan losar allt að 19 tonn af brennisteinsdíoxíði út í andrúmsloftið á ári.
Alúr álvinnslan og Sorpbrennslustöðin Kalka er einnig staðsettar á iðnaðarsvæðinu í Helguvík. Úr brennsluofnum Kölku berast út í andrúmsloftið 1,2 tonn af brennisteinsdíoxíði á ári. Kalka losar einnig um 15 tonn af köfnunarefnisdíoxíði auk svifryks og fleiri efnasambanda. Síðast árið 2014 fór losun á brennisteinsdíoxíði og svifryki yfir þau mengunarmörk sem Umhverfisstofnun setur stöðinni. Frá Alúr berast aðeins rúm 300 kg af brenninsteinsdíoxíði út í andrúmsloftið auk annarra mengunarefna.
Það er deginum ljósara að losun frá kísilmálmverksmiðjunum og væntanlegu álveri kemur til viðbótar við loftmengun frá Alúr, Kölku og Síldarvinnslunni. Einnig má læra af rekstri Kölku og Síldarbræðslunnar að þrátt fyrir góðan ásetning rekstraraðila og yfirvalda fer loftmengun stundum úr böndunum og eftir því sem fyrirtækjunum fjölgar í Helguvík verða tilvikin fleiri og efnakokteillinn varasamari.
Umhverfismörk og heilsuverndarmörk
Í nýlegari blaðagrein er sett fram veruleg einföldun á hugmyndum um mengunarmörk. Þar segir að viðmiðunarreglur leyfi ekki losun utan Helguvíkursvæðisins umfram 20 míkrógrömm í hverjum rúmmetra að meðaltali. Þarna er vísað til gróðurverndarmarka sem skilgreind eru í reglugerð 251/2002 um brennisteinsdíoxíð og fleiri loftmengandi efni. Gróðurverndarmörkin eru reiknuð með tölvustýrðum meðaltals líkanareikningi og það á ársgrundvelli, sem er mikil útþynning á löngu tímabili.
Það að telja fólki trú um að brennisteinsdíoxíð í andrúmslofti fari aldrei yfir 20 míkrógrömm er álíka og að segja að það heyrist aldrei hávaði í flugvélum í Reykjanesbæ. Við vitum öll að það heyrist ekki mannamál þegar tilteknar flugvélar fara yfir bæinn. En reglur um flugvélahávaða tiltaka hinsvegar sólarhringsmeðaltal hávaða þannig að ærandi hávaðamínútur reiknast inn í næturkyrrðina og fara því ekki yfir sólarhringsmörk um hávaða.
Af umhverfismörkum brennisteinsdíoxíðs er ekki öll sagan sögð, þar sem reglugerðin frá 2002 tiltekur einnig heilsuverndarmörk, sem segja hversu oft sólarhringsmeðaltal má fara yfir 50 míkrógrömm og hversu oft má fara yfir 135 míkrógrömm. Auk þess er hámarksfjöldi klukkustundagilda tilgreindur. Þannig gerir reglugerðin ráð fyrir að loftgæði vegna losunar brennisteins séu síbreytileg og að stöðugar mælingar þurfi til að tryggja að hún fari ekki yfir heilsuverndarmörk.
Íbúar njóti vafans – loftgæðamælingar byrji strax
Íbúum bæjarins getur varla fundist þeir njóta vafans varðandi loftmengun, ef fyrirliggjandi er sú staðreynd að góður ásetningur og loforð byggð á líkönum koma ekki í veg fyrir heilsuspillandi mengunarskot á góðviðrisdögum. Þennan vafa má minnka með markvissum loftgæðamælingum. Til að tryggja gagnsæi ætti að hefja mælingar áður en starfsemi næsta iðjuvers hefst og fá þannig vitneskju um núverandi stöðu loftgæða í norðurhluta Reykjanesbæjar.
Í reglugerðum um loftmengunarefni stendur að Umhverfisstofnun skuli sjá til þess að mælistöðvar sem veita nauðsynlegar upplýsingar, séu settar upp svo tryggja megi rétt almennings til upplýsinga og rétt viðbrögð ef loftmengun mælist yfir umhverfismörkum. Í reglugerðinni kemur fram að sá atvinnurekstur, sem valdur er að spillingu loftgæða skuli greiða rekstur mælistöðva. Með ofangreint í huga væri því eðlilegt að bæjaryfirvöld beittu sér fyrir því að mælingar hefjist strax, enda er áætlað að kísilmálmverksmiðja United Silicon fari í gang næsta vor.
Það má engan tíma missa til að tryggja að loftgæðamælingar segi til um gæði andrúmsloftsins sem við öndum að okkur. Mælistöð mætti t.d. staðsetja við Heiðarskóla, þannig að hún nemi mengun frá Helguvík auk þess sem loftmengun frá flugvellinum mælist þar einnig, en í nýju starfsleyfi Isavia er einmitt gerð krafa um ítarlega loftgæðavöktun í nágrenni flugvallarins.
Stjórn Pírata í Reykjanesbæ